Ársskýrsla og sjálfbærniuppgjör VÍS
Árið 2021






Fjárfestingar
— besti árangur frá skráningu
Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá allra besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársins 2021 námu 8,3 milljörðum króna eða 18,7% nafnávöxtun — en þess má geta að árið 2020 var áður besta ár félagsins í fjárfestingum með 5,1 milljarð króna í fjárfestingatekjur og 14,0% nafnávöxtun.
Stærstur hluti fjárfestingatekna ársins kom frá virðishækkunum hlutabréfa. Skráð hlutabréf hækkuðu um 5,0 milljarða króna, sem jafngildir 53,4% nafnávöxtun — en til samanburðar hækkaði OMXIGI hlutabréfavísitalan um 42,1% á árinu. Óskráð hlutabréf hækkuðu einnig talsvert á árinu eða um 1,8 milljarð króna og jafngildir það nafnávöxtun upp á 47,3%. Óskráð hlutabréfasafn félagsins hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár með fjárfestingum í fyrirtækjum á borð við Controlant, Kerecis, Bláa lóninu og Coripharma sem hefur skilað sér í góðri ávöxtun á árinu 2021.
Fjárfestingatekjur skuldabréfa voru öllu minni en þar töldu önnur skuldabréf mest með rúma 0,6 milljarð króna, sem er 5% hækkun, en aðrir flokkar skiluðu minna.
VÍS var fyrsta tryggingafélagið á Íslandi til þess að verða aðili að UN-PRI á síðasta ári, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Í gegnum eignasafn sitt hefur félagið mikil áhrif. Með því að taka tillit til sjálfbærniþátta í fjárfestingum lágmarkar félagið áhættu tengda sjálfbærnimálum — á sama tíma og það virkjar önnur félög til betri starfshátta.
Fjárfestingatekjur
Stærð eignasafns

Þrátt fyrir krefjandi tíma vegna heimsfaraldursins var þróunin á eignamörkuðum verulega hagstæð. Annað árið í röð er árangurinn í fjárfestingum góður.
Á síðasta ári var árangurinn sá allra besti frá skráningu félagsins.
Arnór Gunnarsson
Forstöðumaður fjárfestinga
VÍS á markaði
Heildarvelta með bréf félagins í Kauphöllinni var tæpir 43 milljarðar og jókst lítillega milli ára — eða um 2,2%. Dagleg meðalvelta var um 171 milljón króna og jókst um 1,8% milli ára. Fjöldi viðskipta jókst um 1,4%. Gengi bréfa félagsins í upphafi árs var 14,4 og lok árs 20,4. Markaðsvirði félagsins jókst því um 42% á árinu 2021 — það fór úr 27 milljörðum árið 2020 í 39 milljarða á árinu 2021.
Á síðasta ári var greiddur 1,6 milljarður króna arðgreiðsla til hluthafa, auk þess sem félagið keypti 144.462.192 eigin hluti með framkvæmd endurkaupaáætlana. Hluthafar voru 709 í ársbyrjun og 871 í árslok.
Fimm stærstu hluthafar VÍS
Hluthafar 31. desember 2021 | Hlutur |
---|---|
Lífeyrissjóður verslunarmanna | 8,38% |
Gildi - lífeyrissjóður | 7,73% |
Vátryggingafélag Íslands hf. | 7,63% |
Frjálsi lífeyrissjóðurinn | 7,48% |
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild | 6,84% |
Samsetning hluthafa
Hluthafar | Hlutfall |
---|---|
Lífeyrissjóðir | 50,8% |
Lögaðilar | 13,6% |
Innlendir sjóðir | 14,6% |
Einstaklingar | 6,9% |
Bankar | 5,7% |