Hoppa yfir valmynd

Sjálf­bærni skiptir máli

Sjálfbærni skiptir okkur öllu máli. Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Aðalstarfsemi samstæðunnar felst í vátryggingastarfsemi, fjárfestingum, eigna- og sjóðastýringu ásamt fjárfestingarbankastarfsemi. Í grunninn skiptist þessi starfsemi samstæðunnar í þrjár megin áherslur, þ.e. tryggingastarfsemi, fjármálastarfsemi og fjárfestingar.

Með sjálf­bærni að leið­ar­ljósi

Með sjálfbærni að leiðarljósi, stuðlum við að því að viðskiptavinir okkar lendi síður í tjónum. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað, viljum við koma í veg fyrir þau. VÍS er því kraftmikið hreyfiafl með öflugar forvarnir í broddi fylkingar.

Með sjálfbærni að leiðarljósi

Sjálfbærniuppgjör 2023

Eftirfarandi upplýsingagjöf miðast við tryggingastarfsemina. Ófjárhagsleg upplýsingagjöf fyrir dótturfélögin má finna í ársreikningum þeirra.

Félagið er leiðandi fyrirtæki í vátryggingum á Íslandi og nýtur sterkrar stöðu á markaðnum með um þriðjungs hlutdeild. Hlutverk VÍS sem tryggingafélags er að vera traust bakland í óvissu lífsins sem þýðir að veita viðskiptavinum sínum viðeigandi tryggingavernd svo þeir séu betur undirbúnir fyrir óvænt tjón.

VÍS tryggir einstaklinga, fjölskyldur þeirra ásamt því að tryggja fyrirtæki, starfsemi og eignir þeirra. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 19,7 milljarða í tjónabætur á síðasta ári — en samtals voru tjónin um 37.000. VÍS er aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni, IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar sem og UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. VÍS er einnig aðili að UN Global Compact, alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um innleiðingu ábyrgra starfshátta.

VÍS áfram hæst tryggingafélaga

VÍS fékk 80 stig í UFS mati Reitunar árið 2023. Félaginu tókst að halda í auknar kröfur sem gerðar voru í matinu og hækkaði um tvö stig milli ára. Félagið heldur áfram að vera hæst tryggingafélaga. Þess ber að geta að UFS mat Reitunar var framkvæmt á tryggingastarfseminni, en ekki samstæðunni í heild.

Umhverfi

VÍS hlaut 87 stig fyrir umhverfisþáttinn í UFS-mati Reitunar og hækkar um tvo punkta milli ára. Í rökstuðningi kom fram að félagið hafi mótað góða umgjörð utan um umhverfismál og umhverfisstefna VÍS metin virk. Félagið fylgi ítarlegri aðgerðaráætlun til þess að ná settum markmiðum í umhverfisstefnu. Þess ber að geta að mestu umhverfisáhrif tryggingafélaga snúa að tjónum og tjónamunum.

Samstarf við Netparta

VÍS hóf samstarf við Netparta á árinu 2023, sem er umhverfisvæn endurvinnsla bifreiða, til þess auka framboð varahluta í bílaviðgerðum. Netpartar rifu 45 bíla af ákveðnum tegundum sem gefa af sér um 10.000 varahluti. Eingöngu eru notaðir bílavarahlutir frá Netpörtum, sem eru jafngamlir eða yngri en viðgerðarbíllinn, og hafa hlotið viðeigandi meðhöndlun samkvæmt ISO umhverfis- og gæðavottun.  Þetta framtak dregur úr eftirspurn eftir nýjum varahlutum og þar með útblæstri vegna framleiðslu þeirra. VÍS vill með þessu leggja sitt af mörkum í þágu hringrásarhagkerfisins og minnka kolefnisspor bílaviðgerða. Lífsferilsgreining sýndi fram á að verkefnið getur leitt til lækkunar um 179,5 til 188,9 tCO2 ígildi á ári. Athygli er vakin á því að það samsvarar heildarlosun VÍS fyrir árið 2022.

Lækkun losunar frá þessu framtaki má líkja við að taka nokkra bíla út af veginum á hverju ári. Ef meðalbíll losar til dæmis um 4,6 tonn af koltvísýringi á ári samsvarar losunarsamdrátturinn sem næst með þessu framtaki því að á milli 39 og 41 bíll sé tekinn út af veginum á ári hverju.

Notaðir varahlutir hafa verið nýttir við bílaviðgerðir til margra ára hér á landi, en undanfarin 30 ár hefur VÍS selt um 1.000 tjónaða bíla á ári á uppboðum þar sem bílarnir eru ýmist lagfærðir eða bútaðir í sundur til þess að gefa varahlutum framhaldslíf. VÍS hefur eitt tryggingafélaga boðið upp á lokuð uppboð á tjónabílum eingöngu fyrir varahlutasala sem eru með tilskilin starfsleyfi til að endurselja notaða varahluti. Það hefur tryggt varahlutasölum aðgengi að tjónabílum til niðurrifs og endursölu á aðgengilegra verði en á almennum uppboðum.

Vottaðar kolefniseiningar

Þriðja árið í röð kolefnisjafnaði félagið losun af rekstri félagsins með vottuðum einingum Natural Capital Partners. Þau verkefni sem valin eru endurspegla valin heimsmarkmið.

Félagslegir þættir

VÍS fékk 90 punkta fyrir félagsþætti í UFS mati Reitunar, sem er hækkun um einn punkt frá fyrra mati. Hækkunina má rekja til þess að félagið tók stór skref í tengslum við þjónustu við viðskiptavini á árinu, meðal annars með innleiðingu vildarkerfis og þróun vefverslunar. Samhliða þessum nýjungum sem eru til þess  fallnar að auka ánægju viðskiptavina hefur félagið fjölgað mælikvörðum til þess að greina þá þætti enn frekar.  Niðurstöður úr könnunum um ánægju viðskiptavina, bæði á vegum félagsins og óháðra aðila, benda til þess að ánægja sé að aukast. Í umsögn Reitunar kemur jafnframt fram að VÍS nær góðum árangri í flokki um félagsþætti og jákvætt er að félagið heldur áfram að bæta umgjörð um þá þætti sem þar eru til skoðunar.

Hjá VÍS starfar ánægt og helgað starfsfólk

Áfram eru góðar niðurstöður vinnustaðagreiningar hjá VÍS. Helgun mældist á árinu  4,37 sem þýðir að VÍS er meðal efstu 25% fyrirtækja á Íslandi. Starfsánægja mældist 4,49 sem þýðir að 94% starfsfólks er ánægt eða mjög ánægt í starfi. Helgun hefur aldrei  mælst hærri hjá félaginu.

Styrkir til samfélagsins

Einu sinni á ári eru 10 milljónum úthlutað til samfélagslegra forvarnaverkefna. Á árinu 2023 hlutu þrjú spennandi verkefni styrk, svo sem  rafrænt námskeið sem fjallar um lífið eftir makamissi. Markmiðið er  aðstoða við úrvinnslu sorgar með fræðslu, verkefnum og núvitund. SoGreen hlaut einnig styrk en markmiðið er að framleiða vottaðar kolefniseiningar í samstarfi við helstu hjálparsamtökin í lágtekjuríkjum til að tryggja stúlkum menntun og á sama tíma leiða til verulegs samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnið „týndu stelpurnar“ hlaut einnig styrk en um er að ræða alhliða verkfærakistu fyrir stelpur með ADHD, eða grun um ADHD.

VÍS styrkti einnig Heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavík Global Forum, sem haldið er í Hörpu einu sinni á ári. Þingið er orðinn fastur vettvangur alþjóðlegrar umræðu og tengslamyndunar um réttindi kvenna og kynjajafnrétti. Um 500 þátttakendur skráðu sig til leiks frá um 80 löndum, en fimmtungur þeirra var frá Íslandi.

Stjórnarhættir

VÍS fékk 75 stig fyrir stjórnarhætti, sem er hækkun um tvö stig milli ára. Í rökstuðningi kom fram að félagið hafi nú þegar tekið stór skref í þeim þáttum sem væri horft til, og má þar nefna með skýrum sjálfbærniáherslum, aðild að UN-PRI og ábyrgu vöru- og þjónustuframboði. Í því samhengi má nefna Ökuvísi, sem veitir fjárhagslegan hvata til þess að keyra betur en það dregur úr mengun og getur dregið úr tíðni umferðarslysa. Almennir stjórnarhættir og viðskiptasiðferði eru metin í góðum farvegi hjá félaginu.

Árið 2021 var VÍS fyrsta tryggingafélagið á Íslandi til þess að verða aðili að UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Í gegnum eignasafn sitt hefur félagið mikil áhrif. Með því að taka tillit til sjálfbærniþátta í fjárfestingum lágmarkar félagið áhættu tengda sjálfbærnimálum — á sama tíma og það virkjar önnur félög til betri starfshátta.

VÍS hlaut viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og hlaut um leið nafnbótina: Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Félagið stóðst ISO 27001 vottun í janúar 2024 sem eru mikil og gleðileg tímamót fyrir félagið.

VÍS styður heims­markmið Sameinuðu þjóð­anna

VÍS er aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni og einnig aðili að IcelandSIF, samtökum um ábyrgar fjárfestingar sem og UN-PRI, reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. VÍS er einnig aðili að UN Global Compact, alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hafður er að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta.

Félagið styður sérstaklega við eftirfarandi heimsmarkmið:

VÍS styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Stjórn­ar­hátta­yf­ir­lýsing

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum milli hluthafa, stjórnar, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagaðila. Stjórnarhættir VÍS snúast um að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda félagsins innbyrðis, og gagnvart hluthöfum, og auðvelda þeim þannig að ná markmiðum sínum.

Hjá VÍS er lögð rík áhersla á að þróa stöðugt og styrkja góða stjórnarhætti innan félagsins, og að ferli og vinnubrögð samræmist alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum um bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta.

Stjórnarháttayfirlýsing

Meira áhugavert efni

Árið 2023

Árið 2023 var ár mikilla breytinga hjá félaginu. SIV eignastýring fékk starfsleyfi og sameining VÍS og Fossa átti sér stað.

Lesa meira

Starfsemin

Skagi er móðurfélag VÍS, Fossa og SIV og stefnir á arðbæran vöxt á sviði tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2023.

Lesa meira

Ávarp forstjóra

Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða varð til með sameiningu VÍS og Fossa. SIV eignastýring hlaut jafnframt starfsleyfi á árinu og hóf starfsemi.

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Síðasta ár var viðburðarríkt í sögu félagsins. Við lögðum grunninn að öflugri samstæðu með víðtækar starfsheimildir — og tókum markviss skref í átt að framtíðarsýn félagsins.

Lesa meira