Hoppa yfir valmynd

Vegferðin er skýr

Síðasta ár var viðburðarríkt í sögu félagsins. Við lögðum grunninn að öflugri samstæðu með víðtækar starfsheimildir — og tókum markviss skref í átt að framtíðarsýn félagsins.

Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður Vátryggingafélags Íslands

Samstæðan byggir nú á þremur tekjustoðum, tryggingastarfsemi, fjármálastarfsemi og fjárfestingum. Tekjur af vátryggingasamningum í tryggingastarfsemi námu um 26.474 milljón krónum og hækkuðu um 8,2% á milli ára. Afkoma af vátryggingasamningum nam um 143 milljónum og samsett hlutfall ársins var 99,5%. Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 494 milljónum króna, en banka- og eignastýringarstarfsemin kom inn í rekstur félagsins á síðari hluta ársins. Fjárfestingartekjur af fjárfestingarsafni vátryggingareksturs námu 4.753 milljónum króna. Hagnaður samstæðunnar eftir skatta nam 1.832 milljónum króna. Eignir samstæðunnar námu 65.468 milljónum króna, skuldir námu 44.296 milljónum króna og eigið fé nam í árslok 21.172 milljónum króna.

Nýr kafli í sögu félagsins

Fyrir tveimur árum kynnti stjórn ný markmið fyrir VÍS og gerði að umtalsefni á aðalfundi félagsins. Markmið stjórnar voru að gera félagið að enn vænlegri fjárfestingarkosti á markaði með skýra sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. Markmiðið er að gera félagið söludrifnara og efla tengsl við viðskiptavini. Breytingar í umhverfinu kalla á breyttar áherslur. Markmiðið væri að útvíkka starfsemi félagsins og fjölga tekjustoðum.

Vátryggingafélag Íslands hf. er í sterkri stöðu til að mæta og vera virkur þátttakandi í þróun markaðarins. Vöxtur félagsins byggir á styrkleikum og stöðu félagsins á markaði sem er öflugur viðskiptavinagrunnur, sterk staða á tryggingamarkaði, framúrskarandi árangur í eignastýringu, fjárhagslegur styrkur og öflugur tæknilegur grunnur.

Það var mat stjórnar að stefnumörkunin væru kaflaskil í sögu félagsins. Í upphafi árs 2023 var samið um starfslok við Helga Bjarnason sem forstjóra VÍS en hann hafði leitt starfsemi félagsins frá árinu 2017. Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, tók við starfi forstjóra VÍS en hún hafði verið í leiðandi hlutverki í þróun félagsins á undanförnum árum, þá sérstaklega leitt nýja stefnumótun og umbylt fyrirkomulagi sölu hjá VÍS. Á árinu 2023 var mikil áhersla lögð á sókn og þjónustu og þess vegna var einkar ánægjulegt að sjá að VÍS hækka í Íslensku ánægjuvoginni, eitt tryggingafélaga, auk þess að sjá verulegan viðsnúning í þróun viðskiptavinastofns félagsins.

Fyrsta skrefið í útvíkkun á starfsemi félagsins var stofnun á SIV eignastýringu árið 2022 sem hlaut svo starfsleyfi um mitt ár 2023. Þessi útvíkkun á starfsemi félagsins endurspeglar þá þróun sem hefur átt sér stað víða í Evrópu þar sem tryggingafélög hafa boðið upp á fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónustu. Við ætlum að vera virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi hér á landi og að grípa þau tækifæri sem opnast á fjármálamarkaði.

Sameining VÍS og Fossa

Í febrúar 2023 var tilkynnt að VÍS og hluthafar Fossa hefðu hafið viðræður um sameiningu félaganna á grundvelli kaupsamnings, sem var svo undirritaður í byrjun maí. Hluthafar samþykktu sameininguna á hluthafafundi mánuði síðar. Í október sama ár var tilkynnt til Kauphallar að viðskiptin væru frágengin. Rekstur Fossa fjárfestingarbanka kom inn í samstæðu félagsins í byrjun fjórða ársfjórðungs 2023 og myndar þar með öflugan grunn að fjármálastarfsemi samstæðunnar ásamt SIV eignastýringu.

Framsækið fyrirtæki á fjármálamarkaði

Með því að sameina VÍS og Fossa varð til framsækið fyrirtæki á fjármálamarkaði sem stefnir á enn frekari vöxt á sviði trygginga, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar. Þetta er sameining til sóknar — en félögin njóta góðs af því að styðja við vöxt hvors annars. Saman mynda þessi félög sterka heild með víðtækar starfsheimildir þar sem áherslan er lögð á framúrskarandi þjónustu og traust langtímasamband við viðskiptavini. Ákveðið var að veita Fossum fjárfestingarbanka aukið eigið fé eftir að sameining félaganna átti sér stað til þess að tryggja áframhaldandi vöxt bankans.

Hluthafar samþykktu síðan með afgerandi meirihluta að færa tryggingastarfsemina í dótturfélagið VÍS tryggingar hf. á hluthafafundi þann 17. janúar síðastliðinn. Tilfærsla á vátryggingastarfsemi og starfsleyfi er í umsóknarferli hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Væntingar eru um að tilfærslunni ljúki á næstu mánuðum.

Rökrétt skref í að átt að framtíðarsýninni

Tilfærsla tryggingarekstrar er rökrétt skref á átt að þeirri framtíðarsýn félagsins að verða virkur þátttakandi á fjármálamarkaði með útvíkkun í fjármálatengdri starfsemi. Við viljum skýran fókus og rekstrarlegan aga á tryggingastarfseminni, sem eru meginrök fyrir því að færa starfsemina í dótturfélag. Að lokinni tilfærslu tryggingarekstrar í dótturfélag verður framtíðarskipulag samstæðunnar komið í það horf að tryggingarekstur, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringarstarfsemi verði starfrækt í aðskildum dótturfélögum, með móðurfélag sem styður við dótturfélögin með hagræði, krosssölu og viðskiptaþróun að leiðarljósi.

Samkeppnisforskot til framtíðar

Skipulag samstæðu býður upp á samkeppnisforskot til framtíðar, skýrari afmörkun á áhættu og ráðstöfun fjármagns. Auknir möguleikar eru til fjármögnunar sem og ráðstöfunar fjármagns með áherslu á að hámarka arðsemi. Markmiðið er að rekstrareiningarnar starfi áfram, sem sjálfstæðir lögaðilar undir aðskildum vörumerkjum, VÍS, Fossar fjárfestingarbanki og SIV eignastýring. Starfsemi samstæðunnar hefur fengið nafnið Skagi. Stjórn félagsins leggur til við aðalfund félagsins hinn 21. mars næstkomandi að breyta nafni hins skráða móðurfélags í Skagi hf. Skagi hf. yrði félagið sem skráð er í Kauphöll Íslands, sem áður var undir merkjum Vátryggingafélags Íslands hf.

Framúrskarandi hópur stjórnenda

Móðurfélag samstæðunnar mun lúta tilteknum lagalegum skilgreiningum sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands mun tilkynna félaginu í tengslum við veitingu heimildar til færslu tryggingarekstrar í dótturfélag. Félagið mun í því samhengi þurfa að uppfylla tilgreindar kröfur til samstæðueftirlits og gæða stjórnkerfis. Gert er ráð fyrir því að framtíðarskipulag samstæðunnar raungerist á árinu 2024. Haraldur I. Þórðarson, fyrrum forstjóri Fossa, hefur verið ráðinn forstjóri móðurfélagsins. Samstæðan er í dag afar vel mönnuð og það er framúrskarandi hópur stjórnenda að leiða þessa vegferð sem ég hef fulla trú á nái markmiðum samstæðunnar og efli félagið verulega.

Skýrar vörður í vegferðinni

Vegferðin er skýr. Við höfum lagt grunninn að útvíkkun á starfsemi félagsins og fjölgað tekjustoðum með stofnun á SIV eignastýringu og með sameiningu VÍS og Fossa. Við höfum jafnframt snúið vörn í sókn í tryggingastarfseminni og höfum lagt góðan grunn fyrir komandi tíma. Framundan eru skýrar vörður í vegferðinni. Markmiðið er að bæta grunnrekstur félagsins enn frekar og gera áætlanir félagsins ráð fyrir áframhaldandi lækkun á samsettu hlutfalli. Horfur í rekstri fyrir rekstrarárið 2024 eru settar fram fyrir þrjár megin tekjustoðir í rekstri samstæðunnar og hafa verið kynntar. Ný samstæða hyggst leggja áherslu á skýra upplýsingagjöf til fjárfesta og liður í því er að veita nánari upplýsingar um horfur í rekstri fyrir hvert rekstrarár.

Áframhaldandi áhersla á sókn félagsins

Á síðustu árum hefur verið í gildi kaupaukakerfi fyrir starfsfólk sem er ætlað að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsfólks til lengri tíma. Á þessum umbreytingartíma félagsins, er enn mikilvægara að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsfólks að mati stjórnar, þar sem aukin áhersla er lögð á sókn félagsins. Á aðalfundi félagsins á síðasta ári var stjórn félagsins veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun byggða á 10. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og gera á grundvelli hennar kaupréttarsamninga við starfsfólk VÍS og dótturfélaga þess. Kauprétturinn náði til alls fastráðins starfsfólks félagsins og dótturfélaga þess. Markmið áætlunarinnar eru að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímamarkmið félagsins.

Stjórn félagsins hefur nú tekið starfskjarastefnu þess til heildarendurskoðunar í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað hjá félaginu á liðnu ári. Sami tilgangur liggur að baki þeim heimildum sem þar eru settar fram í tengslum við kaupaukakerfi og almenna kaupréttaráætlun á grundvelli 10. gr. laga um tekjuskatt, þ.e. að halda áfram að tengja með skýrum og skilvirkum hætti hagsmuni félagsins og starfsfólks samstæðunnar í heild til lengri tíma. Jafnframt er horft til þess að færa kaupaukakerfið nær því sem tíðkast á fjármálamarkaði og aðlaga kaupauka að þeim reglum sem lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 mæla fyrir um.

Höldum áfram að grípa tækifæri til vaxtar

Stjórn félagsins mun á aðalfundi 2024 leggja til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur um 0,52 kr. á hlut fyrir reikningsárið 2023 sem jafngildir 1.000 milljónum króna, að teknu tilliti til eigin bréfa. Arðgreiðslan samsvarar 55% af hagnaði ársins eftir skatta. Á síðasta ári voru greiddar um 951 milljón króna, en að teknu tilliti til eigin bréfa voru 939 milljónir króna greiddar til hluthafa. Gjaldþol félagins er nú 1,56 (leiðrétt fyrir arðgreiðslu og endurkaupum á árinu 2024) sem þýðir að félagið hefur áfram svigrúm til að nýta tækifæri á markaði. Félagið stendur á traustum grunni og er vel í stakk búið til þess að takast á við frekari vöxt. Félagið hlaut viðurkenningu Stjórnvísis fyrir góða stjórnarhætti á árinu og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Samstarfið innan stjórnar er mjög traust og gott — sem er mjög mikilvægt og vil ég þakka stjórnarmönnum kærlega fyrir það. Ég vil þakka Guðnýju Hansdóttur, sem nú víkur úr stjórn Vátryggingafélags Íslands, fyrir mjög gott samstarf. Fyrir hönd stjórnar félagsins vil ég einnig þakka forstjórum félagsins og starfsfólki fyrir traust og gott samstarf.

Stefán Héðinn Stefánsson
Stjórnarformaður Vátryggingafélags Íslands

Meira áhugavert efni

Árið 2023

Árið 2023 var ár mikilla breytinga hjá félaginu. SIV eignastýring fékk starfsleyfi og sameining VÍS og Fossa átti sér stað.

Lesa meira

Starfsemin

Skagi er móðurfélag VÍS, Fossa og SIV og stefnir á arðbæran vöxt á sviði tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar.

Lesa meira

Sjálfbærni

Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2023.

Lesa meira

Ávarp forstjóra

Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða varð til með sameiningu VÍS og Fossa. SIV eignastýring hlaut jafnframt starfsleyfi á árinu og hóf starfsemi.

Lesa meira