Hoppa yfir valmynd

Ár viðsnún­ings

Árið 2023 var mikið umbreytingarár í sögu félagsins. Við umbyltum fyrirkomulagi sölu, kynntum nýja framkvæmdastjórn og framtíðarsýn. Við vorum eina tryggingafélagið sem hækkaði í Íslensku ánægjuvoginni og mikil aukning var í sölu líf- og sjúkdómatrygginga — mesti vöxtur undanfarin tíu ár.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS

Á árinu 2023 var umtalsverð áhersla lögð á sókn. Við erum stolt af því að hafa endað árið með fleiri tryggingar en við hófum það með, í fyrsta sinn í sex ár. Við sáum líka mesta vöxt í líf- og sjúkdómatryggingum sem við höfum séð í tíu ár, eða 13%. Á síðasta ári var fyrirkomulagi sölu algjörlega umbylt, veruleg styrking átti sér stað á landsbyggðinni og ný netverslun var kynnt til sögunnar. Áhersla á þjónustu og sókn hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir komandi tíma.

Tekjuvöxtur í tryggingastarfseminni

Það var stígandi í vexti iðgjalda allt síðasta ár. Tekjuvöxtur milli ára var 8,2% og 9,3% á fjórða ársfjórðungi ársins 2023. Árið var óvenjulega tjónaþungt, bæði í tíðni en líka stærð tjóna. Alls voru sex stórtjón á árinu sem höfðu áhrif á afkomu ársins, en hvert stórtjón er hærra en 100 milljónir. Afkoma af vátryggingasamningum nam 143 milljónum króna þar sem bæði tjónahlutfall var óhagstætt og kostnaðarhlutfall yfir markmiðum. Undir lok árs voru hagræðingaraðgerðir framkvæmdar í tryggingastarfseminni sem munu koma fram í lækkun á kostnaðarhlutfalli til framtíðar. Við erum traust bakland í óvissu lífsins og greiddum 19,7 milljarða í tjónabætur til viðskiptavina okkar — en samtals voru tjónin um 37 þúsund talsins.

Ný framtíðarsýn kynnt á árinu

Við kynntum einnig til sögunnar nýja framtíðarsýn þar sem við hverfum frá fyrri áherslum um að vera „stafrænt þjónustufyrirtæki”. Við ætlum okkur að verða fyrsta val með því að einblína á framúrskarandi þjónustu og um leið byggja upp langtímasamband við viðskiptavini okkar. Þessar breyttu áherslur í stefnumörkun fólu í sér endurmat á eignfærðum hugbúnaði félagsins sem leiddi til niðurfærslu á þeim eignum í árslok. Niðurfærsla hugbúnaðar að fjárhæð 805 milljónum króna hefur því neikvæð áhrif á afkomu félagsins á árinu 2023 en mun leiða til lægri afskrifta framvegis. Á síðasta ári voru teknar ákvarðanir sem hafa kostnaðarlækkandi áhrif og bæta afkomu tryggingarekstrar til framtíðar í átt að markmiði um 95% samsett hlutfall.

Á árinu tók til starfa ný framkvæmdastjórn. Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, Sindri Sigurjónsson var ráðinn framkvæmdastjóri trygginga og tjóna, Jón Árni Traustason, forstöðumaður viðskiptagreindar, tók jafnframt sæti í framkvæmdastjórn. Auk fyrrgreindra situr undirrituð í framkvæmdastjórn ásamt Önnu Rós Ívarsdóttur, framkvæmdastjóra mannauðs og menningar. Vegna þeirra umbreytinga sem félagið og samstæðan hafa verið að ganga í gegnum, var beðið með að manna stöðu framkvæmdastjóra eins sviðs, fjármála og tækni. Markmiðið er að veita framúrskarandi þjónustu ásamt því að tryggja arðsemi félagsins. Skipuriti félagsins var breytt til þess að styðja enn betur við þá vegferð.

Breyttar áherslur í þjónustu

Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna spyrjum við og mælum reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við vorum því virkilega stolt af því að vera eina tryggingafélagið sem hækkaði í Íslensku ánægjuvoginni. Þetta eru mikilvæg tímamót þar sem unnið hefur verið markvisst að því að bæta upplifun viðskiptavina. Árið 2023 var krefjandi fyrir mörg fyrirtæki og ánægja viðskiptavina minnkaði hjá flestum þeirra. Við erum því virkilega hreykin af árangri okkar.

Ný netverslun

Við leggjum mikla áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra. Þarfir viðskiptavina er leiðarljósið í öllu okkar starfi. Tryggingar geta virst flóknar — og því leggjum við allt kapp á að gera tryggingar aðgengilegar og skiljanlegar. Nú geturðu keypt tryggingar í netverslun okkar á vis.is. Einfalt og þægilegt, því við vitum hvað tíminn er dýrmætur. Tryggingar skipta okkur öll miklu máli — því rétt vernd getur skipt sköpum í lífi okkar allra. Með kaupum á tryggingum í netverslun okkar fá viðskiptavinir upplýsingar um hvaða vildarkjör og önnur fríðindi þeir hljóta í vildarkerfi VÍS. Í vildarkerfis-appinu er hægt að sjá hvernig kjör og fríðindi breytast m.a. með aukinni viðskiptalengd og fjölda trygginga.

Hjá VÍS starfar helgað og ánægt starfsfólk

Niðurstaða úr vinnustaðagreiningu, sem framkvæmd var í lok árs, hefur aldrei verið betri en hjá VÍS starfar afar helgað og ánægt starfsfólk. Helgun mældist á árinu 4,37 sem þýðir að VÍS er meðal efstu 25% fyrirtækja á Íslandi. Starfsánægja mældist 4,49 sem þýðir að 94% starfsfólks er ánægt eða mjög ánægt í starfi. Þetta eru frábærar niðurstöður. Við leggjum mikla áherslu á að skapa framúrskarandi vinnustað því við vitum að ánægt og helgað starfsfólk er mikilvæg undirstaða fyrir öfluga árangursmenningu.

Þá var VÍS eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR í fimmta sinn. VÍS tilheyrir hópi stórra fyrirtækja með 70 starfsmenn eða fleiri. Fimmtán efstu sætin í hverjum stærðarflokki fá viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki og er VÍS eitt þeirra.

Jarðhræringar á Reykjanesi

Líkt og hjá allri þjóðinni, þá var hugur okkar hjá Grindvíkingum á síðasta ári. Við vildum koma til móts við viðskiptavini okkar á svæðinu. Við opnuðum tímabundna þjónustuskrifstofu á svæðinu til þess að veita viðskiptavinum okkar ráðgjöf varðandi tryggingar. Við ákváðum svo, í ljósi aðstæðna og óvissu, að endurgreiða einstaklingum og fyrirtækjum iðgjöld af fasteignum og heimilum sem nam fjórum mánuðum, enda óvíst hvenær hægt yrði að snúa aftur til Grindavíkur. Við höfum nú framlengt þann tíma meðan ekki er hægt að búa í Grindavík. Auk þess bauð starfsfólk VÍS Grindvíkingum sumarbústaði starfsmannafélagsins til afnota. Í framhaldi, var svo tekin ákvörðun um að opna þjónustuskrifstofu á Reykjanesi. Ég er virkilega ánægð með þá ákvörðun.

Árangur í öryggismálum er ekki heppni, heldur ákvörðun

Öryggismál og forvarnir voru til umræðu á Forvarnaráðstefnu VÍS. Ráðstefnan sem fyrst var haldin árið 2010, hefur skipað sér sess sem einn fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Fjölmennt var á ráðstefnunni en á þriðja hundrað hlýddi á erindi sérfræðinga og stjórnenda sem deildu reynslu sinni af forvörnum og öryggismálum. Rafverktakinn Rafeyri hlaut forvarnaverðlaun VÍS en verðlaunin hlýtur það fyrirtæki sem þykir skara fram úr í öryggismálum og er öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Einnig er verðlaunað fyrir sterka öryggismenningu þar sem unnið er markvisst í að efla öryggisvitund og öryggishegðun. Við viljum styðja viðskiptavini okkar við að skapa sterka og öfluga öryggismenningu. Því við vitum að árangur í öryggismálum er ekki heppni — heldur ákvörðun.

VÍS áfram hæst tryggingafélaga

VÍS fékk 80 stig Í UFS mati Reitunar árið 2023. Félaginu tókst að halda í auknar kröfur sem gerðar voru í matinu og hækkaði um tvö stig milli ára. Félagið heldur áfram að vera hæst tryggingafélaga. Þess ber að geta að UFS matið var framkvæmt á tryggingastarfseminni, en ekki á samstæðunni í heild.

VÍS hlaut 87 stig fyrir umhverfisþáttinn og hækkar um tvo punkta milli ára. Í rökstuðningi kom fram að félagið hafi mótað góða umgjörð utan um umhverfismál og umhverfisstefna VÍS metin virk. Félagið fylgi ítarlegri aðgerðaráætlun til þess að ná settum markmiðum í umhverfisstefnu. Þess ber að geta að mestu umhverfisáhrif tryggingafélaga snúa að tjónum og tjónamunum.

VÍS fékk 90 punkta fyrir félagsþætti, sem er hækkun um einn punkt frá fyrra mati. Hækkunina má rekja til þess að félagið tók markviss skref í tengslum við aukna þjónustu við viðskiptavini á árinu, meðal annars með innleiðingu vildarkerfis og þróun vefverslunar.

VÍS fékk 75 stig fyrir stjórnarhætti, sem er hækkun um tvö stig milli ára. Í rökstuðningi kom fram að félagið hafi nú þegar tekið stór skref í þeim þáttum sem væri horft til, t.a.m. með skýrum sjálfbærniáherslum, aðild að UN-PRI og ábyrgu vöru- og þjónustuframboði. Í því samhengi má nefna Ökuvísi, sem veitir fjárhagslegan hvata til þess að keyra betur en það dregur úr mengun og getur dregið úr tíðni umferðarslysa. Almennir stjórnarhættir og viðskiptasiðferði er metin í góðum farvegi hjá félaginu.

Þetta var því árangursríkt ár hjá tryggingafélaginu. Nú siglum því inn í nýtt ár á nýjum grunni og erum spennt fyrir framhaldinu.

Guðný Helga Herbertsdóttir
Forstjóri VÍS

Meira áhugavert efni

Árið 2023

Árið 2023 var ár mikilla breytinga hjá félaginu. SIV eignastýring fékk starfsleyfi og sameining VÍS og Fossa átti sér stað.

Lesa meira

Starfsemin

Skagi er móðurfélag VÍS, Fossa og SIV og stefnir á arðbæran vöxt á sviði tryggingastarfsemi, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar.

Lesa meira

Sjálfbærni

Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2023.

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Síðasta ár var viðburðarríkt í sögu félagsins. Við lögðum grunninn að öflugri samstæðu með víðtækar starfsheimildir — og tókum markviss skref í átt að framtíðarsýn félagsins.

Lesa meira