Hoppa yfir valmynd

Öflugt fjár­mála­fyr­ir­tæki
í sterkri stöðu

Árið 2022 einkenndist af hækkandi verðbólgu og vöxtum ásamt stríðsátökum handan Atlantshafsins sem hafði áhrif á okkur líkt og aðra, til dæmis með óróa og krefjandi aðstæðum á verðbréfamörkuðum. Þetta var líka árið þegar samfélagið fór á fullt skrið eftir heimsfaraldurinn. Hagnaður ársins var 940 milljónir þrátt fyrir talsverðar áskoranir á eignamörkuðum. Hagnaður af vátryggingarekstri nam 694 milljónum og samsett hlutfall ársins var 99,2%.

Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS

Stjórn VÍS hefur markað stefnu sem felur í sér ákveðin kaflaskil í rekstri félagsins. Markmið stjórnarinnar er að gera VÍS að enn vænlegri fjárfestingakosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan. Liður í því er að gera félagið sóknardrifnara, efla tengsl við viðskiptavini og vera í fararbroddi við að innleiða nýjungar í tryggingastarfsemi. Við ætlum að vera virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt, eignastýringu og grípa þau tækifæri sem opnast á fjármálamarkaði.

Stafræna vegferðin

Við höfum stigið ákveðin og þétt skref í átt að því að verða stafrænt þjónustufyrirtæki. Ökuvísir, sem er nýstárleg ökutækjatrygging, hefur verið afar vel tekið hjá viðskiptavinum okkar. Við erum afar stolt af því að Ökuvísir hafi hlotið Íslensku vefverðlaunin fyrir app ársins og tæknilausn ársins á síðasta ári. Við kynntum einnig nýtt vildarkerfi til sögunnar ásamt nýju appi sem einnig hefur verið mjög vel tekið. Með nýju vildarkerfi viljum verðlauna fyrir tryggð viðskiptavina okkar með gagnsæjum hætti, fyrst tryggingafélaga. Við náðum þeim áfanga á síðasta ári að nú skrást 80% af tjónstilkynningum sjálfvirkt í kerfin okkar og í mörgum tilfellum er útgreiðsla tjóna einnig orðin sjálfvirk. Tjónabætur greiðast því út á einungis nokkrum mínútum. Svo höfum við umbylt stafrænu kaupferli líf-og sjúkdómatrygginga. Stafræna vegferð félagins er því á fullri ferð til framtíðar.

Við hugsum til framtíðar

Hröð samfélags- og tækniþróun með aukinni fjártækni, nýrri samkeppni og dreifileiðum á markaði hefur umbreytt samkeppnisumhverfi trygginga- og fjármálamarkaða. Þá hefur verið mikil gerjun á markaði hér á landi, meðal annars mögulegir samrunar sem kunna að breyta landslaginu hratt. VÍS er og vill vera í sterkri stöðu til að mæta og taka þátt í þessari þróun. Tvö mikilvæg skref hafa þegar verið stigin í þessa átt. Við stofnuðum SIV eignastýringu á síðasta ári, sem við höfum miklar væntingar til, og erum í viðræðum við Fossa Fjárfestingarbanka um sameiningu félaganna. Þessi útvíkkun á starfsemi VÍS endurspeglar þá þróun sem hefur átt sér stað víða í Evrópu þar sem tryggingafélög hafa boðið upp á fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónustu. Við viljum hugsa til framtíðar og tryggja að félagið þróist í takt við samfélagið.

Eignastýring fellur vel að starfseminni

Fjárfestingar og virk stýring eignasafns er önnur af tveimur grunnstoðum í starfsemi VÍS og því fellur eignastýring vel að starfsemi félagsins. VÍS mun fela SIV eignastýringu að stýra fjárfestingareignum sínum. Ég tel að þetta sé rökrétt skref í þróun félagsins því við viljum styrkja stoðir eignastýringarinnar og um leið fjölga tekjustoðum samstæðunnar. Með þessu skrefi erum við að minnka áhættu í starfsemi eignastýringarinnar, en um leið efla starfsumhverfið og skapa aukið virði — ekki bara fyrir hluthafa VÍS, heldur alla haghafa.

VÍS mun eiga ráðandi hlut í SIV eignastýringu og mun eitt fara með virkan eignarhlut í félaginu. Aðrir helstu hluthafar verða lykilstarfsmenn sem munu jafnframt starfa hjá félaginu. Með beinni fjárfestingu lykilstarfsmanna erum við að tvinna saman hagsmuni þeirra og félagsins ̶ sem og hagsmuni annarra fjárfesta með eignir í stýringu. Markmiðið er að styrkja stoðir félagsins.

Viðræður um sameiningu VÍS og Fossa

Í febrúar 2023 var tilkynnt um að VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hafi ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Félögin telja að fyrirhuguð sameining muni styrkja þau til sóknar á spennandi tímum á fjármálamarkaði.

Gangi samningar eftir, er gert ráð fyrir að hluthafar Fossa fjárfestingarbanka fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu. Kaupin yrðu háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsstofnana og samþykki hluthafafundar VÍS. Stefnt er að frágangi endanlegs samkomulags og boðun hluthafafundar í byrjun apríl.

Sameinað félag yrði öflugt fjármálafyrirtæki í sterkri stöðu til þess að nýta sér vaxtarmöguleika á markaði. Það myndi búa yfir fjárhagslegum styrk, afburða starfsfólki og sterkum innviðum fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, lánveitinga, miðlunar, fyrirtækjaráðgjafar, eignastýringar, sjóðastýringar og sérhæfðrar fjármálaþjónustu. Félögin búa yfir þremur óháðum starfsleyfum frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (tryggingastarfsemi, eignastýring og fjárfestingarbankastarfsemi) og hafa víðtækar starfsheimildir. Þessi öflugi grunnur byði upp á ótal tækifæri til vaxtar.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Í ágúst 2022 hlaut VÍS viðurkenningu Stjórnvísi vegna góðra stjórnarhátta og nafnbótina „Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“. VÍS er einnig eitt af framúrskarandi fyrirtækjum að mati Creditinfo. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra. Þá var VÍS á árinu valið eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR í fjórða sinn.

Félagið stendur á traustum grunni

Útgreiðsla til hluthafa, í formi arðs og endurkaupa, var rúmir fjórir milljarðar á síðasta ári ̶ eða um 11,5% af markaðsvirði félagsins. Þetta eru með hæsta útgreiðslum til hluthafa frá skráningu félagsins. Stjórn félagsins mun á aðalfundi 2023 leggja til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur kr. 0,554 á hlut fyrir árið 2022, eða um 940 milljónum króna — sem samsvarar öllum hagnaði ársins eftir skatta.

Auk þess keypti félagið 34,4 milljónir eigin hluta með framkvæmd endurkaupaáætlana á árinu 2022, eða því sem nemur 614 milljónum króna. Í upphafi árs 2023 hafa verið keyptir 20 milljón eigin hluta sem nema 352,4 milljónum króna. Þrátt fyrir það er efnahagur félagsins mjög sterkur og hefur eiginfjárhlutfall haldist sterkt eða yfir 30%. Gjaldþol félagins er 1,58 eftir þessar aðgerðir og eru í efri mörkum áhættuvilja félagsins, sem þýðir að það hefur áfram svigrúm til að nýta tækifæri á markaði, vaxtar eða frekari endurkaupa á eigin hlutum. Félagið stendur því traustum grunni og vel í stakk búið að takast á við frekari vöxt.

Mikilvægt að tengja hagsmuni starfsmanna og hluthafa

Á þessum umbreytingartíma félagsins þar sem aukin áhersla er lögð á sókn félagsins er enn mikilvægara að tengja saman hagsmuni hluthafa og starfsmanna að mati stjórnar. Starfsmenn njóta nú kaupauka í samræmi við fjárhagslegan árangur sem og stefnumarkandi markmið stjórnar. Hluti af áherslubreytingu stjórnar er að leggja til við aðalfund að koma á kaupréttaráætlun hjá félaginu samkvæmt 10. gr. laga nr. 90/2003 sem myndi ná til allra starfsmanna VÍS. Tilgangurinn með því að heimila stjórn að samþykkja slíka kaupréttaráætlun er að samtvinna hagsmuni félagsins og starfsmanna með enn skýrari hætti — og gefa starfsmönnum kost á því að njóta þess, ef félaginu vegnar vel.

Samið um starfslok forstjóra félagsins

Þann 10. janúar 2023, var ákveðið að semja um starfslok við Helga Bjarnason sem forstjóra félagsins, en hann hafði leitt starfsemina frá 1. júlí 2017. Það var mat stjórnar að nú væri rétti tíminn til þess hefja nýjan kafla í sögu félagsins á þeim góða grunni sem lagður hefur verið. Ég þakka Helga fyrir mikilvægt framlag hans til uppbyggingar félagsins.

Guðný Helga nýr forstjóri

Gengið hefur verið frá ráðningu Guðnýjar Helgu Herbertsdóttur í starf forstjóra VÍS — en hún hefur verið starfandi forstjóri síðan 10. janúar sl. Guðný Helga hefur verið í framkvæmdastjórn félagsins síðan 2017. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra sölu og þjónustu á vormánuðum 2022 en var áður framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar. Hún hóf störf hjá VÍS árið 2016 sem markaðsstjóri félagsins og hefur verið í leiðandi hlutverki í stefnumótun þess á undanförnum árum.

Guðný Helga kom inn í nýtt hlutverk í upphafi árs af festu og öryggi og nýtur mikils trausts, bæði stjórnar og starfsfólks. Stjórn telur að hún sé sú rétta til þess að leiða tryggingafélagið áfram enda er hún framúrskarandi stjórnandi. Þekking hennar, reynsla og styrkleikar nýtast vel í vegferðinni framundan — og er gert ráð fyrir að hún leiði tryggingahluta starfseminnar í stækkandi samstæðu.

Í sterkri stöðu til þess að sækja fram

Félagið byggir á traustum grunni og ríkri sögu í íslensku samfélagi. Við erum í sterkri stöðu til að sækja fram og grípa þau tækifæri sem gefast. Við viljum fjölga tekjustoðum, dreifa áhættu og sækja fram á nýjum slóðum — auðvitað með hagsmuni hluthafa sem og starfsmanna að leiðarljósi. Samstarfið innan stjórnar hefur verið mjög traust og gott — og vil ég þakka kærlega fyrir það. Fyrir hönd stjórnar VÍS vil ég einnig þakka fyrir gott samstarf við starfsfólk félagsins á árinu. Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu þar sem aukin áhersla er lögð á sókn þess. Ég hlakka því til vegferðarinnar framundan.

Stefán Héðinn Stefánsson

Stjórnarformaður VÍS

Stjórn VÍS

Stjórn VÍS er kjörin til eins árs í senn. Kjörnir eru fimm aðalmenn og tveir varamenn.

Stefán Héðinn Stefánsson

Stjórnarformaður

Nánar

Vilhjálmur Egilsson

Varaformaður

Nánar

Guðný Hansdóttir

Stjórnarmaður

Nánar

Marta Guðrún Blöndal

Stjórnarmaður

Nánar

Valdimar Svavarsson

Stjórnarmaður

Nánar

Sveinn Friðrik Sveinsson

Varamaður

Nánar

Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir

Varamaður

Nánar

Meira áhugavert efni

Árið 2022

Árið 2022 var árið þar sem við settum alla áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra.

Lesa meira

Starfsemin

Við unnum ýmsa sigra á árinu 2022. Við þróuðum nýtt vildarkerfi, nýtt app, lögðum aukna áherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar, héldum stærstu forvarnaráðstefnu hér landi og stafræn vegferð var á fullri ferð.

Lesa meira

Sjálfbærni

Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2022.

Lesa meira

Ávarp forstjóra

Árið 2022 var ár mikilla breytinga hjá VÍS. Á vormánuðum var kynnt nýtt skipulag þar sem lögð var mun meiri áherslu á sókn og upplifun viðskiptavina.

Lesa meira