Forvarnir í forgrunni
Framtíðarsýn okkar er að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka og fækki tjónum. Með sjálfbærni að leiðarljósi, stuðlum við að því að viðskiptavinir okkar lendi síður í tjónum. Félagið er því kraftmikið hreyfiafl með öflugar forvarnir í broddi fylkingar. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað, viljum við koma í veg fyrir þau. Við viljum skapa saman öruggari framtíð.
Látum öryggið passa
Á síðasta ári fórum við af stað með auglýsingaherferð sem við kölluðum „Látum öryggið passa.“ Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um öryggi. Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum svona mikilvægar græjur. Þar kemur falleg hönnun til hjálpar – og færir okkur mikilvæg öryggistæki sem passa heimilið og fjölskylduna hvar og hvenær sem er. Hugmyndin var að taka alveg nýja nálgun þar sem við útskýrum hvernig öryggið getur verið aðlaðandi, spennandi og einfalt.
Við höfum hugrekki til þess að breyta
Við héldum áfram þeirri mikilvægu vinnu að marka skýra sýn og stefnu með stjórnendum félagsins. Við fórum yfir nýjar áherslur og markmið. Við vitum hvert við ætlum — og hvernig við förum þangað. Skýr sýn og stefna marka leiðina og forgangsröðun verkefna er unnin af öllum stjórnendum félagsins. Við höfum sagt það áður en við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka. Það þýðir að við hugsum tryggingarnar upp á nýtt og höfum hugrekki til þess að breyta. Það þarf nefnilega kjark og þor til að breyta hlutum og fara ótroðnar slóðir — slóðir sem aldrei hafa verið farnar.
Við héldum áfram að þróa stafrænu ferlana sem við höfum nú þegar kynnt til sögunnar — en markmiðið er auka hlutfall tjóna sem fer í sjálfvirka afgreiðslu — enda er félagið á stafrænni vegferð. Allt er þetta gert til þess að einfalda viðskiptavinum okkar lífið. Við vitum nefnilega hvað tíminn er dýrmætur.
Fækkum slysum í umferðinni
Í upphafi árs kynntum við til sögunnar Ökuvísi sem er byltingarkennd nýjung á íslenskum tryggingamarkaði. Ökuvísir var vel tekið af viðskiptavinum okkar en markmiðið er að leggja okkar að mörkum til þess að bæta umferðarmenninguna — og fækka bílslysum hér á landi. Ökuvísir snýst einfaldlega um að keyra vel — og borga minna. Verðskrá fyrir tryggingu hefur aldrei verið jafn skýr og gagnsæ. Engin flókin verðskrá með fjölbreyttum breytum og persónubundnum afslætti. Því betur sem þú keyrir, því minna borgarðu. Íslendingar geta því raunverulega haft áhrif á verð ökutækjatrygginga með aksturslagi sínu. Í hefðbundinni ökutækjatryggingu getur verðskráin verið flókin — og getur t.d. litur bílsins og hvar þú býrð haft áhrif á verðið. Við sjáum nú að meirihluti ökumanna hefur stórbætt aksturinn og við trúum því að betri akstur muni fækka slysum í umferðinni.
Við erum á réttri leið
Við erum einnig stolt af því að hafa hlotið alþjóðleg nýsköpunarverðlaun fyrir Ökuvísi á árinu en tæknifyrirtækið OutSystems veitti verðlaunin — en Outsystems býður upp á fjölbreyttar tæknilausnir fyrir stafræn verkefni, t.d. smáforrit (e. app) og vefsíður. Áður hafa fyrirtæki á borð við Banco Santander, bswift, Certis, Medtronic og New York Life Insurance unnið nýsköpunarverðlaun Outsystems.
Global Banking & Finance Review® veitti okkur einnig verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun í þjónustu og vöruþróun. Þessi verðlaun veita okkur byr undir báða vængi — og staðfesta að við séum á réttri leið. Þetta er því mikil viðurkenning fyrir stafrænu vegferðina okkar. Við erum nú á hraðri leið í átt að framtíðarsýninni að vera stafrænt þjónustufyrirtæki — og Ökuvísir er mikilvæg varða á þeirri leið.
Einfaldlega betri tryggingar
Við kynntum einnig til sögunnar nýtt og stórbætt kaupferli líf- og sjúkdómatrygginga á árinu. Þetta er stafrænt ferli frá upphafi til enda — þar sem upplifun viðskiptavina og sjálfvirkni leika aðalhlutverk. Nú er hægt er að ganga frá málinu á einungis örfáum mínútum — sem er alger bylting frá því sem áður var.
Á árinu kynntum við til sögunnar stórbætta kaskótryggingu. Við teljum okkur nú bjóða upp á bestu kaskótrygginguna hér á landi, með víðtækustu vernd sem völ er á. Ég er virkilega stoltur af þeim endurbættu tryggingum sem við höfum kynnt til sögunnar á árinu. Þetta eru einfaldlega betri tryggingar.
Bætt upplifun viðskiptavina okkar
Á síðasta ári lögðum við mikla áherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar og sáum merki þess að við erum á réttri leið þar sem við urðum hástökkvarar meðal íslenskra tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni — þó enn sé langt í toppinn. Við viljum sífellt bæta upplifun viðskiptavina okkar og ánægju. Þess vegna mælum við reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna því markmiðið er að gera stöðugt betur. Við höldum því áfram að hlusta á viðskiptavini okkar — og höldum áfram að gera betur. Við höfum því lagt höfuðáherslu á að bæta upplifun þeirra — og innleiddum CRM kerfi fyrir stjórnun viðskiptatengslanna. Við höfum miklar væntingar til þess að kerfið hjálpi okkar að bæta tengslin viðskiptavini okkar sem skiptir okkur auðvitað öllu máli. Við ætlum að nota kerfið til þess að umbylta snertiflötum og samskiptum við viðskiptavini okkar. En nýtt kerfi mun ekki eitt og sér bæta upplifun viðskiptavina og því er enn mikilvægara en áður að þétta raðirnar og skerpa fókusinn. Við erum með framúrskarandi starfsmannahóp með skýra framtíðarsýn. Með skýrt leiðarljós — þar sem viðskiptavinurinn er í fyrsta sæti — komumst við þangað sem við ætlum.
Sjálfbærni sem leiðarljós
Sjálfbærni hélt áfram að vera mikilvægt leiðarljós hjá félaginu. Við styðjum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og sérstaklega heimsmarkmið þrjú sem snýr að heilsu og vellíðan en þar beinum við spjótum okkar að forvörnum — og undirmarkmið 3.6 fjallar um að fækka banaslysum í umferðinni. Með samvinnu við viðskiptavini okkar — og með Ökuvísi — höfum við fulla trú á því að það takist. Við kolefnisjöfnuðum reksturinn með vottuðum kolefniseiningum frá Natural Capital partners og settum okkur metnaðarfull markmið til framtíðar, þar á meðal að minnka losun frá rekstri félagsins um 50% fyrir árið 2025.
Mikilvægir áfangasigrar í jafnréttismálum
Við erum stolt af því að hafa náð að útrýma launamun kynjanna hjá félaginu. Allt frá því að við settum jafnréttismálin á oddinn fyrir tæpum 20 árum hafa margir áfangasigrar unnist. Við vorum í hópi þeirra fyrirtækja sem fyrst fengu jafnlaunavottun fyrir fjórum árum eða í lok árs 2017 — og í samræmi við vottunina hefur launamunur verið óverulegur og innan viðmiðunarmarka. Nú höfum við náð þeim mikilvæga áfanga að ekki mælist launamunur hjá félaginu. Þetta er afrakstur margra ára ásetnings um að útrýma launamun kynjanna. Ég er því mjög stoltur af þessum áfanga. Við leggjum ríka áherslu á jafnrétti — og má geta þess að hlutfall framkvæmdastjóra og forstöðumanna er til helmings konur og karlar. Við leggjum ríka áherslu á heilbrigða og góða vinnustaðamenningu — og öfluga ferla sem taka á erfiðum málum. Mér finnst mikilvægt að leggja skýrar línur með heilbrigð og heiðarleg samskipti — sem og góðan starfsanda.
VÍS er til fyrirmyndar
- VÍS er eitt af framúrskarandi fyrirtækjum að mati Creditinfo. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra.
- VÍS var eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR ársins 2021. Þetta er í þriðja skiptið sem VÍS fær viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki VR en á síðasta ári fékk félagið jafnfram nafnbótina Fyrirtæki ársins, en þá var félagið í einu af fimm efstu sætunum.
- Á síðasta ári hlutum við í þriðja skiptið gullmerki Jafnvægisvogarinnar sem félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitir. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni og hefur náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að vekja samfélagið til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytileika og jafnrétti kynjanna í stjórnunarstöðum.
- Við erum stolt af því að hafa hlotið viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti. Að auki hlutum við nafnbótina „fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ en Stjórnvísir, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland standa að viðurkenningunni.
Við siglum inn í nýtt ár full af bjartsýni og tilhlökkun. Það eru mörg spennandi verkefni framundan — við ætlum að halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka.
Helgi Bjarnason
Forstjóri VÍS