Ávarp framkvæmdastjóra SIV eignastýringar
Yfirgripsmikil reynsla af fjármálamörkuðum
SIV eignastýring var stofnað árið 2022 og hlaut starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða í júní á síðasta ári en félagið starfrækir eignastýringu og sjóðastýringu. Formleg starfsemi félagsins hófst því um mitt síðasta ár, en í árslok 2023 námu eignir í stýringu 63,7 milljörðum króna hjá félaginu. Félagið stofnaði fimm sjóði á síðasta ári, sem eru sérhæfðir sjóðir fyrir almenning sem og sérhæfðir sjóðir fyrir fagfjárfesta.
Á síðasta ári lauk SIV eignastýring fjármögnun á nýjum sjóði sem ber nafnið SIV Credit Fund slhf. Sjóðurinn er samlagshlutafélag, sem kemur að fjármögnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og mun fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, að mestu með veði í fasteignum og öðrum fastafjármunum. Heildaráskriftarloforð sjóðsins nema 10,5 milljörðum króna og eru eigendur sjóðsins margir af stærstu fagfjárfestum landsins.
Í kjölfar sameiningar VÍS og Fossa færðist rekstur Glyms – Lausafjársjóðs yfir til SIV undir lok árs 2023. Þrír aðrir sjóðir frá Glym færðust til SIV í upphafi árs 2024 og þar með er tilfærsla allra sjóða Glyms til SIV lokið. SIV er nú samtals með tíu sjóði í stýringu.
Eignastýringarsvið félagsins sér um stýringu eignasafns VÍS auk þess að bjóða öðrum stærri fjárfestum upp á eignastýringarþjónustu. Starfsfólk okkar hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af fjármálamörkuðum. Markmiðið er góð ávöxtun og langtímaárangur fyrir viðskiptavini okkar.
Árangur við stýringu eignasafns VÍS var góður og ávöxtun safnsins umfram viðmið. Fjárfestingartekjur námu 4.753 milljónum króna á árinu sem samsvarar 10,7% ávöxtun en til samanburðar nam viðmiðið 2,4% hækkun á ávöxtun. Í virkilega krefjandi markaði skiluðu allir eignaflokkar safnsins jákvæðri ávöxtun, þó mest frá skuldabréfum og óskráðum hlutabréfum.
Arnór Gunnarsson
Framkvæmdastjóri SIV eignastýringar