Ávarp forstjóra
Nýtt afl á fjármálamarkaði
Síðasta ár var viðburðaríkt þar sem ný samstæða varð til með sameiningu VÍS og Fossa. SIV eignastýring hlaut jafnframt starfsleyfi á árinu og hóf starfsemi. Þar með var grunnur lagður að nýju afli á fjármálamarkaði sem stefnir á arðbæran vöxt á sviði trygginga, fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringar. Nýtt framtíðarskipulag samstæðu hefur verið kynnt og samþykkt af hluthöfum með tilfærslu tryggingareksturs í dótturfélag.
Félagið er rétt að hefja vegferð sína í fjárfestingarbankastarfsemi og eignastýringu og hefur metnaðarfull áform um vöxt á íslenskum fjármálamarkaði. Rekstur Fossa og SIV er kynntur sameiginlega sem fjármálastarfsemi samstæðunnar. Á þessum fyrstu stigum í fjármálastarfsemi eru skýr merki um traust fjárfesta með aukningu eigna í stýringu á árinu. Í lok árs voru eignir í stýringu Fossa og SIV um 117 milljarðar króna og SIV er nú með tíu sjóði í stýringu. Samhliða betri markaðsaðstæðum undir lok síðasta árs hefur rekstur Fossa með nýjum tekjusviðum bankans skilað auknum tekjum og gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið. Nýtt ár byrjar af miklum krafti. Rekstrarniðurstaða af fjármálastarfsemi á fjórða ársfjórðungi er tap upp á fjórar milljónir króna eftir skatta.
300 tillögur í nafnasamkeppni
Skagi er nýtt nafn móðurfélags VÍS, Fossa fjárfestingarbanka og SIV eignastýringar. Skagi verður skráða félagið í Kauphöll Íslands, sem áður var undir merkjum VÍS. Nýtt nafn og vörumerki var nýlega kynnt til sögunnar en tillaga um nafnabreytingu í Skagi hf. verður lögð fram á aðalfundi félagsins þann 21. mars næstkomandi.
Eftir ítarlega leit, þar sem starfsfólk samstæðunnar skilaði inn hátt í þrjú hundruð tillögum, fannst nafn sem stóðst allar kröfur. Nafnið Skagi er innblásið af íslenskri náttúru, styrk hennar og samspili við líf fólksins í landinu. Það vísar í stórt nes eða langan höfða og þykir kröftugt en er á sama tíma stutt og hljómfagurt. Hinir ýmsu skagar landsins teygja sig tignarlega frá meginlandinu með fallegu útsýni yfir land og sjó. Tröllaskagi, Skipaskagi, Tindaskagi, Garðskagi og Skagatá — skaga er að finna í öllum landshlutum. Nafnið er viðeigandi fyrir fyrirtæki með djúpar rætur í íslensku samfélagi líkt og tryggingafélagið en vísar í einnig í markmið félagsins að tengja íslenskt atvinnulíf við erlenda markaði.
Við viljum vera leiðandi þegar kemur að tengingu íslensks atvinnulífs við alþjóðlegt fjárfestingarumhverfi. Það tekur á sig ólíkar myndir innan ólíkra félaga innan samstæðu. Mikilvægt er að hugsa í alþjóðlegu samhengi, því það víkkar sjóndeildarhringinn og breikkar skírskotun í alla ákvarðanatöku sem gerir hana betri. Nauðsynlegt er að bera sig saman við það sem best gerist, ekki bara hérlendis heldur alþjóðlega, og reyna að keppa við það. Þá verðum við framúrskarandi í því sem við gerum fyrir viðskiptavini okkar, sem við stefnum að alla daga.
Samþættingin á síðasta ári
Á síðasta ári fór mikill kraftur í sameiningu og svo samþættingu félaganna. Til þess að tryggja að samþættingin yrði sem farsælust, tókum við okkur tíma til þess að skipuleggja hana í þaula og skilgreindum verkstrauma. Úr varð að hátt í þrjátíu verkstraumar voru skilgreindir fyrir lykilverkefni ásamt vel skilgreindri ábyrgð á hverjum og einum. Fulltrúar allra félaga í samstæðunni tóku þátt í samþættingunni sem stóð yfir á haustmánuðum og fram yfir áramót.
Í samþættingu félaga er áherslan gjarnan á kostnaðar- og tekjusamlegð. Kostnaðarsamlegð er oft augljósari vegferð og í okkar tilfelli felst hún í samnýtingu innviða, húsnæðis og upplýsingatæknikerfa. Ekki síður í lægri fjármögnunarkostnaði sem fæst með aukinni stærð samstæðunnar. Jákvætt er að sjá strax merki um lægri fjármögnunarkostnað hjá okkur. Tekjusamlegð er flóknari í framkvæmd því það þarf að fylgja henni fast á eftir — sem við höfum gert og fer vel af stað. Við sjáum augljós tækifæri í því að bjóða viðskiptavinum samstæðunnar upp á breiðara vöruframboð enda er áherslan okkar á framúrskarandi þjónustu og langtíma viðskiptasamband. Tækifærin liggja þó ekki síst í áframhaldandi vexti samstæðunnar til framtíðar og við stefnum að því að taka markviss skref í þá átt á komandi misserum.
Nýtt afl á fjármálamarkaði er tilbúið til sóknar
Samstæðan býr að langri og farsælli sögu í tryggingarekstri, framsækni í fjármálaþjónustu og langtímaárangri í fjárfestingum. Áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu og traust langtímasamband við viðskiptavini. Við erum komin á fullan skrið. Nú er búið að kynna framtíðarskipulag og setja fram langtímamarkmið og horfur fyrir árið. Við erum komin á fullt í sókn, en í fyrra náðist fram mikilvægur viðsnúningur í sölu trygginga, fjármálastarfsemin hefur verið á siglingu allt frá sameiningu og fjárfestingarnar eru í góðum farvegi sem fyrr. Við höfum enn fremur kynnt aðgerðir um hagræðingu í rekstri í öllum rekstrareiningum sem ég vænti að komi skýrt fram í afkomu næstu ára. Við komum til með að halda markaðnum, hluthöfum og öðrum markaðsaðilum, upplýstum um framganginn á komandi ársfjórðungum. Verkefni okkar er nú að láta verkin tala og sýna framgang í átt að okkar markmiðum. Nýtt afl á fjármálamarkaði er tilbúið til sóknar.
Haraldur I. Þórðarson
Forstjóri Skaga