Hlutverk okkar í samfélaginu
VÍS er eitt stærsta tryggingafélag landsins og á djúpar rætur í íslensku samfélagi.
Félagið var formlega stofnað þegar Samvinnutryggingar og Brunabótafélags Íslands sameinuðust árið 1989 — en Brunabótafélagið rekur sögu sína allt aftur til ársins 1917.VÍS býður víðtæka tryggingaþjónustu þar sem rík áhersla er lögð á viðeigandi ráðgjöf, skilvirkni, sveigjanleika og góða þjónustu. Meginstarfsemi VÍS er á sviði skaðatrygginga. Helstu tegundir eru eignatryggingar, sjó- og farmtryggingar, lögboðnar og frjálsar ökutækjatryggingar, ábyrgðartryggingar og slysatryggingar.
Líf- og sjúkdómatryggingar
VÍS á og rekur Líftryggingafélag Íslands, Lífís, sem býður upp á persónutryggingar á borð við líf- og sjúkdómatryggingar auk barnatrygginga.
Framkvæmdastjóri Lífís á árinu 2022 var Guðný Helga Herbertsdóttir en þegar hún tók við starfi forstjóra félagsins tók Ólafur Njáll Sigurðsson við starfi framkvæmdastjóra Lífís. Í stjórn sitja þau Guðný Helga Herbertsdóttir, Margrét Bjarnadóttir og Óskar Hafnfjörð Auðunsson. Varamenn eru þau Marta Guðrún Blöndal og Valtýr Guðmundsson.
Mætum því óvænta
Hlutverk okkar sem tryggingafélag er að vera traust bakland í óvissu lífsins. Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að velja viðeigandi tryggingavernd svo þeir séu betur undirbúnir fyrir lífsins ólgusjó. Ef eitthvað kemur upp á, þá erum við klár í að mæta því óvænta með þér.
Við greiddum viðskiptavinum okkar 16,8 milljarða í tjónabætur á síðasta ári. Þetta voru 36.500 tjón.
Sigrar á árinu
Við unnum ýmsa sigra á árinu 2022. Við þróuðum nýtt vildarkerfi, nýtt app, lögðum aukna áherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar, héldum stærstu forvarnaráðstefnu hér landi, stafræn vegferð var á fullri ferð og nú skrást 80% allra tjónstilkynninga sjálfvirkt í kerfin okkar. Ökuvísir hélt áfram að slá í gegn og hlaut verðlaun fyrir app ársins og tæknilausn ársins á Íslensku vefverðlaununum. Við settum okkur metnaðarfull markmið í jafnréttismálum og urðum hæst allra tryggingafélaga í UFS mati Reitunar.
Hjartað í samskiptum við viðskiptavini
Eitt stærsta verkefni ársins var þróun á nýju vildarkerfi VÍS þar sem viðskiptavinir fá vildareinkunn sem byggir á fjölda trygginga, viðskiptalengd og fjölda tjóna. Vildareinkunnin ákvarðar hvaða vildarkjör bjóðast. Í nýju VÍS appi sjá viðskiptavinir upplýsingar um sín vildarkjör og þar má einnig sjá yfirlit trygginga og tilkynna tjón. Félagið er því fyrst íslenskra tryggingafélaga til að verðlauna fyrir tryggð viðskiptavina sinna með gagnsæjum hætti. Vildarkerfið er því hjartað í samskiptum við viðskiptavini.
Við viljum tryggja rétta vernd viðskiptavina okkar
Endurskipulagning á sókn og sölu, sem hófst með nýju skipulagi á síðasta ári, hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina. Við lögðum áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra. Við áttum því frumkvæði að rúmlega 20.000 samskiptum við viðskiptavini okkar.
Framúrskarandi þjónusta skiptir okkur öllu máli
Við viljum veita framúrskarandi þjónustu en við getum ekki mætt þörfum viðskiptavina okkar nema þekkja væntingar þeirra og þarfir. Við höfum lagt höfuðáherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar, fylgjast betur með ánægju þeirra, bregðast við ábendingum og halda betur utan um samskiptin. Við viljum þekkja þá betur og byggja undir traust viðskiptasamband — því við viljum auka ánægju þeirra og eiga ánægða viðskiptavini.
Fækkum tjónum
Við sinnum öflugu forvarnarstarfi, með einstaklingum og fyrirtækjum. Öllum fyrirtækjum býðst forvarnaþjónusta en reynslan sýnir að það leiðir til raunverulegs árangurs við að fækka tjónum og slysum — og um leið fjárhagslegs ávinnings fyrir fyrirtækin. VÍS hefur þá sérstöðu að geta boðið fyrirtækjum aðgang að atvikaskráningarkerfinu ATVIK sem er mikilvægt verkfæri til að halda utan um áhættur í starfseminni sem meðal annars auðveldar yfirsýn og úrbætur.
Stærsta ráðstefna sinnar tegundar hér á landi
VÍS heldur forvarnaráðstefnu á hverju ári sem orðin sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi en hún var haldin í tólfta sinn á árinu 2022. Forvarnaráðstefna VÍS, sem var haldin í Hörpu, fjallar um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Vel valdir sérfræðingar og stjórnendur deila reynslu sinni með ráðstefnugestum. Það er okkur mikill heiður að verðlauna það fyrirtæki sem þykir skara fram úr í öryggismálum en Alvotech hlaut Forvarnaverðlaun VÍS 2022. Alvotech er fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum og öryggismálum en því fylgir mikil ábyrgð að framleiða lyf. Öryggismál eru því algjört forgangsatriði.
Stafrænt þjónustufyrirtæki
Mikil þróun hefur átt sér stað í einföldun og aukinni sjálfvirknivæðingu í meðhöndlun tjónstilkynninga frá viðskiptavinum. Yfir 80% tjónstilkynninga skráist nú sjálfvirkt ofan í grunnkerfi og í mörgum tilfellum er úrvinnsla tjónstilkynninga algerlega sjálfvirk og viðskiptavinir fá tjón sitt bætt á örfáum mínútum. Einnig er nú viðmót fyrir tjónstilkynningar í boði á ensku og þannig er komið til móts við vaxandi hóp viðskiptavina sem ekki tala íslensku.
Viðskiptavinum í Ökuvísi heldur áfram að fjölga hratt og sífellt fleiri viðskiptavinir kjósa að lækka verð ökutækjatrygginga með því að bæta aksturslag sitt. Við erum auðvitað að springa úr stolti að Ökuvísir hafi hlotið Íslensku vefverðlaunin fyrir bæði tæknilausn ársins sem og app ársins.
Við sýnum umhyggju í verki
Áhersla er lögð á að VÍS sé góður vinnustaður með einstaka vinnustaðamenningu. Leitast er við að skapa fjölbreytt tækifæri fyrir starfsfólk VÍS. Við berum hag starfsfólks félagsins fyrir brjósti og sýnum umhyggju í verki. Áfram voru góður niðurstöður vinnustaðagreiningar hjá VÍS, en í lok árs 2022 mældist helgun 4,24 sem er frábær niðurstaða. Starfsánægja mældist 4,5 — sem þýðir að VÍS er meðal efstu 25% fyrirtækja á Íslandi.
Jafnrétti er ákvörðun
Jafnrétti kynjanna skiptir okkur miklu máli. Því er lögð mikil áhersla á jafnrétti hjá félaginu — og að nýta styrkleika starfsfólks, óháð kyni. Óútskýrður launamunur kynjanna hefur lækkað jafnt og þétt og á árinu 2021 var honum útrýmt. Á árinu 2022 mælist enginn launamunur.
VÍS hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2022 fyrir kynjahlutfall í framkvæmdastjórn félagsins. VÍS hefur nú hlotið þessa viðurkenningu fjögur ár í röð sem vakið hefur athygli. Þá hefur VÍS verið með einkunnina 9 af 10 á GemmaQ kvarðanum sem birtist á keldan.is. Þar birtist jafnréttiseinkunn allra fyrirtækja í Kauphöllinni. Þar er horft til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja með kynjagleraugunum. Meðaltal fyrirtækjanna í Kauphöllinni er 7,2. Því er ljóst að VÍS er í fremstu röð á Íslandi þegar kemur að jafnréttis- og jafnlaunamálum.
VÍS hlaut fyrst jafnlaunavottun 2017 og er nú með gilda vottun út árið 2023. Viðhalda þarf vottun með reglubundnum úttektum þar sem sannreynt er að unnið sé eftir skjalfestu verklagi, yfirferð niðurstaðna launagreininga og til þess að staðfesta að lagfæringar frá síðustu úttekt hafi verið gerðar. Í kjölfarið fer fram endurútgáfa vottorðs til þriggja ára. Niðurstöður launagreininga sýna að félagið hefur náð gríðarlega miklum árangri í jafnréttismálum.
Metnaðarfull markmið
Við höfum nú sett okkur metnaðarfull markmið um að lækka einnig óleiðréttan launamun kynjanna, en það er sá munur sem er á launum kynjanna án þess að tekið sé tillit til mismunandi starfa. Til að ná þessu markmiði þarf jafna hlut kynjanna í störfum eftir verðmati, ásamt því að endurskoða verðmat á störfum til að tryggja að þar sé ekki kynjahalli.
Stefnumiðuð stjórnun
Við héldum áfram að með stefnumiðaða stjórnun (e. OKR) sem gefur enn skarpari sýn og styrkingu innviða félagsins. Hún byggir á aðkomu og innsýn allra stjórnenda — og mótuðum nýja lykilmælikvarða fyrir félagið.
VÍS hæst tryggingafélaga
Við stigum stór skref í sjálfbærnimálum á árinu og því erum við stolt af því að hafa hækkað um tíu stig í UFS áhættumati Reitunar. Við fengum 78 stig af 100 í einkunn hjá Reitun fyrir árið 2021 og erum því hæst tryggingafélaga.
Óleiðréttur launamunur hefur lækkað hjá VÍS þegar til lengri tíma er litið en hefur staðið nokkurn veginn í stað síðastliðinn þrjú ár. Þó er þessi munur mun lægri hjá félaginu en meðaltalið í okkar atvinnugeira, fjármála- og tryggingastarfsemi. Jafnframt er munurinn minni hjá okkur en á almenna vinnumarkaðnum. Við viljum þó gera enn betur.
Með því að setja í jafnréttisáætlun okkar sérstakt markmið um að minnka mun á meðallaunum karla og kvenna og þannig lækka óleiðréttan launamun teljum við að VÍS sé að stíga stórt jafnréttisskref. Þannig vonumst við til að verða öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd.