Stafræn þróun
Stafrænir sigrar og alþjóðleg viðurkenning
Á síðasta ári fórum við að stað með auglýsingaherferð sem við köllum „Látum öryggið passa.“ Hugmyndin var að taka alveg nýja nálgun þar sem við útskýrum hvernig öryggi getur verið aðlaðandi, spennandi og einfalt. Mikilvægt er að öryggistækin séu sýnileg og aðgengileg þegar við virkilega þurfum á þeim að halda. Þau gera nefnilega lítið gagn ef þau eru falin ofan í skúffu.
Þar kemur falleg hönnun til hjálpar — og færir okkur mikilvæg öryggistæki sem passa heimilið og fjölskylduna hvar og hvenær sem er. Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um svona mikilvægar græjur. Til er fjölbreytt úrval af flottum öryggistækjum sem eru mikil prýði upp á vegg. Við hvetjum þig til þess að láta öryggið passa og skoða úrval fallegra öryggistækja á vefsíðu okkar.
Við elskum nýsköpun!
Félagið er á spennandi stafrænni vegferð. Við elskum nýsköpun — og nýjar hugmyndir. Þá er mikilvægt að temja sér hugrekki og kjark til þess að hugsa hlutina upp á nýtt. Frá árinu 2018 hafa verið haldnir stafrænir sprettir (e. digital sprints) til þess leysa spennandi viðfangsefni. Starfsmenn VÍS eru hvattir til að sækja um í hverju verkefni þannig að ólíkir einstaklingar með fjölbreytta reynslu og menntun leysa verkefnið hverju sinni. Þetta hefur mælst vel hjá starfsmönnum og gefið þeim tækifæri á starfsþróun og ögrun í starfi. Í framhaldi hafa fjöldamargir stafrænir sprettir verið haldnir — og fjölbreytt vöruþróun átt sér stað hjá VÍS.
Alþjóðleg viðurkenning fyrir stafræna vegferð
Í upphafi árs 2021 var Ökuvísir kynntur til leiks — sem er byltingakennd nýjung — og nýr valkostur í bílatryggingum á Íslandi. Hægt er að fá aðgang að appi sem veitir virka endurgjöf um hvað megi gera betur í umferðinni. Ökuvísir er eina bílatryggingin hér á landi þar sem einungis tveir þættir hafa áhrif á verðið, þ.e. hvernig þú keyrir (aksturseinkunn) og hversu mikið þú keyrir. Ökuvísir er því bæði fordæmalaus og fordómalaus trygging! Yfir 60% viðskiptavina okkar með Ökuvísi hafa bætt akstur sinn. Við trúum því að með þessari nýsköpun leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar að bæta umferðarmenningu á Íslandi.
Alþjóðlega tæknifyrirtækið OutSystems veitti okkur nýsköpunarverðlaun í lok árs fyrir vöruþróun ársins. Mörg þekkt fyrirtæki voru einnig tilnefnd og því er þetta mikil viðurkenning fyrir VÍS. Áður hafa fyrirtæki á borð við Banco Santander, bswift, Certis, Medtronic, New York Life Insurance og Union Bank of the Philippines unnið nýsköpunarverðlaun Outsystems. Þessi verðlaun veita okkur byr undir báða vængi — og staðfesta að við erum á réttri leið.