Kjarnastarfsemi
Skýr markmið til framtíðar
Hlutverk okkar sem tryggingafélag er að vera traust bakland í óvissu lífsins. Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að velja viðeigandi tryggingavernd svo þeir séu betur undirbúnir fyrir lífsins ólgusjó. Við greiddum viðskiptavinum okkar 17 milljarða í tjónabætur á síðasta ári. Þetta voru 34.000 tjón — sem er fækkun um 2,4% í samanburði við árið á undan. Iðgjöldin námu 23.041 milljörðum og nam vöxtur þeirra 2,4% á árinu. Þess má geta að við leggjum höfuðáherslu á arðsemi umfram vöxt iðgjalda — og vöxtur arðvænlegustu viðskiptavina jókst um 5% á síðasta ári.
Afkoma ársins 2021 var 7,7 milljarðar — en var 1,8 milljarðar árið á undan. Undirliggjandi tryggingarekstur ársins var góður, meðal annars vegna áhrifa af alheimsfaraldrinum, sem gerði okkur kleift að styrkja tjónaskuld félagsins enn frekar og færa niður óefnislegar eignir, á sama tíma og við náðum markmiðum okkar. Samsett hlutfall ársins var jafnframt í lægsta bili útgefinnar afkomuspár. Samsett hlutfall ársins 97,1,% borið saman við 109,8% árið á undan.
Viðsnúningur í afkomu félagsins
Það sem bar einna hæst á árinu 2021 er viðsnúningur í afkomu félagsins í samanburði við árið á undan. Árið 2020 litaðist af mikilli leiðréttingu tjónaskuldar sem hafði veruleg áhrif á samsett hlutfall þess árs. Leiðrétting tjónaskuldar var umfangsmikil vinna sem kláraðist á árinu 2021 — en þess má geta að á 18 mánaða tímabili hækkaði tjónaskuldin um rúma þrjá milljarða. Framvegis er gert ráð fyrir við eðlilegum matsbreytingum sem koma til vegna tjónaþróunar hverju sinni.