Hoppa yfir valmynd
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS

Ávarp forstjóra

Árið 2020 er eftirminnilegt

fyrir margra hluta sakir. Það sem hæst bar var alheimsfaraldurinn sem hafði víðtækar afleiðingar á samfélagið okkar.

Ný hugsun einkenndi árið að svo mörgu leyti. Ekki síst vegna þess að við fengum rými til þess að staldra við og velta fyrir okkur hverju viljum við áorka og hverju þurfum við að breyta — og af hverju?

Í upphafi faraldursins fóru tryggingafélög víða um heim að endurgreiða ökutækjatryggingar í ljósi þess að umferð minnkaði verulega með tilheyrandi fækkun umferðaróhappa. Þetta ýtti við okkur að hugsa hlutina upp á nýtt  — og þá með sjálfbærum hætti. Hvernig væri hægt að hvetja viðskiptavini okkar til öruggara aksturslags og fækka bílslysum á sama tíma? Og ef viðskiptavinir okkar keyrðu minna — hvernig væri hægt að  umbuna fyrir það? Við vildum hugsa hlutina til lengri tíma, þannig viðskiptavinir okkar gætu sjálfir haft áhrif á það sem þeir borga fyrir ökutækjatryggingu. Afraksturinn er Ökuvísir. Markmiðið er skýrt — að fækka umferðarslysum hér á landi.

Ökuvísir er byltingarkennd nýjung

Nú er hægt að tryggja sér þessa byltingarkenndu nýjung á íslenskum tryggingamarkaði. Ég er stoltur af því frumkvöðlastarfi sem átti sér stað hjá okkur við hönnun og þróun á Ökuvísi á síðasta ári. Við ætlum okkur að breyta því hvernig tryggingar virka og þetta er stórt skref í þá átt. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað, viljum við koma í veg fyrir þau.

Þess ber að geta að sjálfbærni er mikilvægt leiðarljós hjá félaginu. Við styðjum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og sérstaklega heimsmarkmið þrjú sem snýr að heilsu og vellíðan en þar beinum við spjótum okkar að forvörnum. Undirmarkmið 3.6 fjallar um að fækka banaslysum í umferðinni. Við trúum því að okkur takist það í góðri samvinnu við viðskiptavini okkar. Við ætlum að fækka bílslysum á Íslandi.

Í fyrsta skipti á Íslandi hafa einungis tveir þættir áhrif á iðgjöldin, þ.e. aksturseinkunn og eknir kílómetrar. Þetta er því mun einfaldari verðskrá en hefðbundin verðskrá fyrir ökutækjatryggingu. Því þar hefur aldur tryggingataka, áhættusvæði, þyngd bílsins, hestöfl, vélarstærð og litur hans sem og orkugjafi áhrif á hvað hver og einn borgar fyrir lögbundna ökutækjatryggingu. Verðskráin er því einfaldari og gagnsærri en hún hefur nokkurn tímann verið. Hægt er að prófa í tvær vikur hvort Ökuvísir henti. Ef appið hentar ekki, þá er auðvelt að velja hefðbundnari tryggingaleið. Viðskiptavinir okkar hafa valið.

Ökuvísir keyrir niður verðið

Ökuvísir er byltingarkennd nýjung í ökutækjatryggingum þar sem þú stjórnar verðinu. Því betur sem þú keyrir, því minna borgar þú.

Lesa meira um Ökuvísi

Endurmat á tjónaskuld

Undirliggjandi tryggingarekstur ársins 2020 var góður m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Neikvæð matsþróun undanfarin ár leiddi til þess að aðferðafræði við tryggingafræðilega útreikninga á tjónaskuld var aðlöguð og endurskoðuð til að lágmarka neikvæða matsþróun til framtíðar. Styrking tjónaskuldar, matsbreytingar og endurskoðuð aðferðafræði er stærsta ástæða þess að tjónaskuldin hækkaði um tæpa þrjá milljarða króna sem hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Hagnaður ársins 2020 var 1.798 milljónir króna í samanburði við 2.527 milljónir króna árið 2019. Samsett hlutfall ársins var 109,8% borið saman við 97,5% árið á undan.

Besti árangur í fjárfestingum frá skráningu félagsins

Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársins voru 5,3 ma.kr. eða 14% nafnávöxtun yfir tímabilið. Skráð hlutabréf skiluðu rúmlega 35% ávöxtun á árinu. Erlend skuldabréf skiluðu góðri afkomu á fjórða ársfjórðungi, sem og á árinu í heild, en erlendar fjárfestingar telja nú um 10% af heildarsafni félagsins. Þess ber að geta að þær eru gengisvarðar að fullu. Fjárfestingaeignir í lok ársins námu 41 ma.kr. og hafa aldrei verið hærri. Um 37% af safninu eru í hlutabréfum og þar af 27% í skráðum innlendum hlutabréfum.

Fjárfestingatekjur árið 2020

5.284
milljónir króna

Stærð eignasafns

41.103
milljónir króna

Starfsemi síðasta árs

Til þess að tryggja öryggi starfsmanna okkar og viðskiptavina var ákveðið að loka þjónustuskrifstofum okkar í mars á síðasta ári. Áhersla var lögð á að vera til staðar fyrir viðskiptavini okkar svo sem að veita greiðslufresti og sýna skilning á aðstæðum. Tiltölulega lítill hluti viðskiptavina nýtti sér úrræðið um greiðslufrest í faraldrinum. Þrátt fyrir umtalsverð áhrif á efnahagsumhverfið, reyndust fjárhagsleg áhrif á félagið óveruleg á árinu 2020. Fjárhagsstaða félagsins er mjög sterk og félagið vel í stakk búið fyrir komandi tíma.

Til þess að bregðast við þeirri óvissu sem einkenndi árið 2020 var ekki greiddur út arður vegna ársins 2019. Stjórn félagsins leggur til við aðalfund félagsins að samþykkt verði arðgreiðsla til hluthafa upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður sem sköpuðust vegna þessa þá gekk starfsemin vonum framar. Við höfum til margra ára lagt áherslu á að starfsmenn okkar séu „snarpir og skarpir“ sem þýðir að þeir séu fljótir að tileinka sér nýjungar, sýni sveigjanleika og umfram allt hugsi í lausnum. Þeir gerðu það svo sannarlega í þessum krefjandi aðstæðum. Þrátt fyrir fjölbreyttar áskoranir á síðasta ári sýndu mælingar, sem framkvæmdar voru reglulega á árinu 2020 að starfsmenn voru mjög ánægðir og helgaðir í starfi. Af því er ég stoltur.

Breytum því hvernig tryggingar virka

Framtíðarsýn okkar er sú að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka og fækki tjónum. Með sjálfbærni að leiðarljósi er stuðlað að því að viðskiptavinir okkar lendi síður í tjónum. Félagið er því kraftmikið hreyfiafl með öflugar forvarnir í broddi fylkingar. Þess ber að geta að framtíðarsýnin er leiðarvísir í öllum ákvörðunum sem teknar eru hjá félaginu. Líkt og fyrr sagði, þá er Ökuvísir stórt skref í þessa átt. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað þá viljum við koma í veg fyrir þau. Við erum því samhentur hópur starfsmanna með skýrt leiðarljós — og skýran tilgang. Viðskiptavinir okkar eiga að lenda síður í tjónum.

Áherslur félagsins hafa verið mótaðar fyrir næstu misseri og snúa að því að bæta upplifun viðskiptavina. Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna mælum við reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna með það að markmiði að gera stöðugt betur. Þarfir viðskiptavina okkar eru leiðarvísir í öllum okkar störfum. Við höldum því áfram að hlusta á viðskiptavini okkar — og höldum áfram að gera betur. Við sjáum þróun í rétta átt — en betur má ef duga skal. Einkunnin okkar í Íslensku ánægjuvoginni er ekki ásættanleg. Henni ætlum við að breyta.

Stafrænir sigrar

Sú stafræna umbylting sem hefur átt sér stað hjá félaginu á undanförnum þremur árum gerði það að verkum að við gátum brugðist hratt við breyttu landslagi vegna faraldursins. Segja má að faraldurinn hafi verið prófsteinn á stafræna þróun víða í samfélaginu — og þar var VÍS engin undantekning.

Þjónustan var færð alfarið á netið um miðjan marsmánuð og viðskiptavinir félagsins brugðust vel við þeirri breytingu. Þeir nýttu sér óhikað stafrænar lausnir félagsins. Mánaðarlegar innskráningar á vis.is hafa þ.á.m. aukist um nær 400% frá því að stafræn vegferð hófst fyrir um þremur árum. Þess ber að geta að innskráningar jukust um tæp 90% á síðasta ári. Þá var einnig sett met í hlutfalli rafrænna tjónstilkynninga en um 60% allra tjóna eru nú tilkynnt rafrænt. Þess má geta að ný heimasíða félagsins leit dagsins ljós á síðasta ári, en þar var allt kapp lagt á að útskýra tryggingar á mannamáli og veita góð ráð um forvarnir — sem stuðla að því að viðskiptavinir félagsins lendi sjaldnar í tjóni.

Þrátt fyrir ýmsar áskoranir sem fylgdu alheimsfaraldrinum þá fékk félagið góðan byr í seglin í átt að framtíðarsýninni; að vera stafrænt þjónustufyrirtæki.

VÍS er fyrirmyndarfyrirtæki

VÍS var valið eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR á síðasta ári. Könnunin er ein viðamesta vinnumarkaðskönnun sem gerð er hér á landi. Fyrirtæki ársins eru fimmtán talsins og eru fimm í hverjum stærðarflokki. VÍS er í flokki stórra fyrirtækja ársins — og er á þeim lista í fyrsta sinn.

Á síðari hluta ársins 2020 veitti Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) félaginu gullmerki Jafnvægisvogarinnar. Þetta var í annað sinn sem félagið hlýtur viðurkenninguna. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/ 60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Hlutfallið milli kynja í framkvæmdastjórn VÍS í er 40/ 60 konum í vil en undanfarin ár hefur félagið náð að vera með minnsta kosti 40% kvenna í framkvæmdastjórn.

Þá er VÍS með einkunnina 9 af 10 á GemmaQ kvarðanum sem birtist á Keldan.is en þar birtist jafnréttiseinkunn allra fyrirtækja í Kauphöllinni. Þar er horft til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja út frá jafnrétti kynjanna. Þess ber að geta að meðaltal fyrirtækjanna í Kauphöllinni er 6,9. Félagið hefur fengið jafnlaunavottun og leyfi frá Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið. Við erum stolt af þeim árangri að ekki mælist marktækur launamunur á kynjunum hjá VÍS. Það er mikilvægur áfangi.

Viðskiptavinir okkar styrkja góð málefni

Ég er ánægður með að viðskiptavinir okkar hafi nú val um að styrkja góðgerðarfélög þegar þeir kaupa líf- og sjúkdómatryggingar á netinu. Valið stendur milli þriggja góðgerðarfélaga sem eru Kraftur, MS félag Íslands og Hjartaheill. Þeir viðskiptavinir okkar, sem hafa valið þessa leið við að tryggja líf og heilsu sína, söfnuðu rúmum ellefu milljónum króna fyrir þessi góðgerðarfélög á árinu 2020.

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður sem sköpuðust á síðasta ári vegna faraldursins þá gekk starfsemin vonum framar. Ég er stoltur af starfsmönnum félagsins sem sýndu og sönnuðu hvað í þeim býr. Þetta er samhentur hópur öflugra starfsmanna — með skýr markmið.

Ég er einnig stoltur af sigrum síðasta árs. Ég hef mikla trú á Ökuvísi — og ég trúi því að okkur takist að fækka bílslysum í íslensku samfélagi. Framundan eru því spennandi tímar.

Ég hlakka til að halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka. Með skýrt leiðarljós eru okkur allir vegir færir.

Forstjóri VÍS
Forstjóri VÍS

Meira áhugavert efni

Ár tækifæra og nýrrar hugsunar

Árið 2020 var eftirminnilegt ár. Ekki síst vegna alheimsfaraldursins sem skók heimsbyggðina. Bregðast þurfti hratt við þessum nýja raunveruleika og starfsmenn VÍS unnu heiman frá sér meira og minna frá marsmánuði.

Þetta var líka ár nýrrar hugsunar og nýrra tækifæra. Ökuvísir, sem er byltingarkennd nýjung hjá VÍS, var unninn og þróaður á árinu 2020.

Lesa meira

Starfsemin

VÍS er stærsta tryggingafélag landsins og á djúpar rætur í íslensku samfélagi. VÍS er leiðandi fyrirtæki í vátryggingum á hér á landi og nýtur sterkrar stöðu á markaðnum með liðlega þriðjungs hlutdeild.

Félagið býður víðtæka vátryggingaþjónustu þar sem rík áhersla er lögð á góða ráðgjöf, skilvirkni, sveigjanleika og framúrskarandi þjónustu.

Lesa meira

Sjálfbærni

Við leggjum áherslu á að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins í lágmarki og stuðla að því að umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi í tengslum við alla starfsemi félagsins.

Lesa meira

Lykiltölur

Hagnaður ársins 2020 var 1.798 milljónir króna. Samsett hlutfall ársins var 109,8%. Fjárfestingatekjur ársins voru 5.284 milljónir króna ─ en árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá besti frá skráningu félagsins. Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 12,0%

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég lít yfir árið 2020. Þetta var skrýtið ár með miklum áskorunum. Alheimsfaraldurinn, sem skók alla heimsbyggðina, hafði veruleg áhrif á samfélagið okkar. Við þurftum að aðlaga okkur hratt og vel að nýjum raunveruleika. Þá kom styrkur félagins bersýnilega í ljós.

Lesa meira