Starfsemi síðasta árs
Til þess að tryggja öryggi starfsmanna okkar og viðskiptavina var ákveðið að loka þjónustuskrifstofum okkar í mars á síðasta ári. Áhersla var lögð á að vera til staðar fyrir viðskiptavini okkar svo sem að veita greiðslufresti og sýna skilning á aðstæðum. Tiltölulega lítill hluti viðskiptavina nýtti sér úrræðið um greiðslufrest í faraldrinum. Þrátt fyrir umtalsverð áhrif á efnahagsumhverfið, reyndust fjárhagsleg áhrif á félagið óveruleg á árinu 2020. Fjárhagsstaða félagsins er mjög sterk og félagið vel í stakk búið fyrir komandi tíma.
Til þess að bregðast við þeirri óvissu sem einkenndi árið 2020 var ekki greiddur út arður vegna ársins 2019. Stjórn félagsins leggur til við aðalfund félagsins að samþykkt verði arðgreiðsla til hluthafa upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.
Þrátt fyrir krefjandi aðstæður sem sköpuðust vegna þessa þá gekk starfsemin vonum framar. Við höfum til margra ára lagt áherslu á að starfsmenn okkar séu „snarpir og skarpir“ sem þýðir að þeir séu fljótir að tileinka sér nýjungar, sýni sveigjanleika og umfram allt hugsi í lausnum. Þeir gerðu það svo sannarlega í þessum krefjandi aðstæðum. Þrátt fyrir fjölbreyttar áskoranir á síðasta ári sýndu mælingar, sem framkvæmdar voru reglulega á árinu 2020 að starfsmenn voru mjög ánægðir og helgaðir í starfi. Af því er ég stoltur.
Breytum því hvernig tryggingar virka
Framtíðarsýn okkar er sú að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka og fækki tjónum. Með sjálfbærni að leiðarljósi er stuðlað að því að viðskiptavinir okkar lendi síður í tjónum. Félagið er því kraftmikið hreyfiafl með öflugar forvarnir í broddi fylkingar. Þess ber að geta að framtíðarsýnin er leiðarvísir í öllum ákvörðunum sem teknar eru hjá félaginu. Líkt og fyrr sagði, þá er Ökuvísir stórt skref í þessa átt. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað þá viljum við koma í veg fyrir þau. Við erum því samhentur hópur starfsmanna með skýrt leiðarljós — og skýran tilgang. Viðskiptavinir okkar eiga að lenda síður í tjónum.
Áherslur félagsins hafa verið mótaðar fyrir næstu misseri og snúa að því að bæta upplifun viðskiptavina. Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna mælum við reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna með það að markmiði að gera stöðugt betur. Þarfir viðskiptavina okkar eru leiðarvísir í öllum okkar störfum. Við höldum því áfram að hlusta á viðskiptavini okkar — og höldum áfram að gera betur. Við sjáum þróun í rétta átt — en betur má ef duga skal. Einkunnin okkar í Íslensku ánægjuvoginni er ekki ásættanleg. Henni ætlum við að breyta.
Stafrænir sigrar
Sú stafræna umbylting sem hefur átt sér stað hjá félaginu á undanförnum þremur árum gerði það að verkum að við gátum brugðist hratt við breyttu landslagi vegna faraldursins. Segja má að faraldurinn hafi verið prófsteinn á stafræna þróun víða í samfélaginu — og þar var VÍS engin undantekning.
Þjónustan var færð alfarið á netið um miðjan marsmánuð og viðskiptavinir félagsins brugðust vel við þeirri breytingu. Þeir nýttu sér óhikað stafrænar lausnir félagsins. Mánaðarlegar innskráningar á vis.is hafa þ.á.m. aukist um nær 400% frá því að stafræn vegferð hófst fyrir um þremur árum. Þess ber að geta að innskráningar jukust um tæp 90% á síðasta ári. Þá var einnig sett met í hlutfalli rafrænna tjónstilkynninga en um 60% allra tjóna eru nú tilkynnt rafrænt. Þess má geta að ný heimasíða félagsins leit dagsins ljós á síðasta ári, en þar var allt kapp lagt á að útskýra tryggingar á mannamáli og veita góð ráð um forvarnir — sem stuðla að því að viðskiptavinir félagsins lendi sjaldnar í tjóni.
Þrátt fyrir ýmsar áskoranir sem fylgdu alheimsfaraldrinum þá fékk félagið góðan byr í seglin í átt að framtíðarsýninni; að vera stafrænt þjónustufyrirtæki.
VÍS er fyrirmyndarfyrirtæki
VÍS var valið eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR á síðasta ári. Könnunin er ein viðamesta vinnumarkaðskönnun sem gerð er hér á landi. Fyrirtæki ársins eru fimmtán talsins og eru fimm í hverjum stærðarflokki. VÍS er í flokki stórra fyrirtækja ársins — og er á þeim lista í fyrsta sinn.
Á síðari hluta ársins 2020 veitti Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) félaginu gullmerki Jafnvægisvogarinnar. Þetta var í annað sinn sem félagið hlýtur viðurkenninguna. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/ 60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Hlutfallið milli kynja í framkvæmdastjórn VÍS í er 40/ 60 konum í vil en undanfarin ár hefur félagið náð að vera með minnsta kosti 40% kvenna í framkvæmdastjórn.
Þá er VÍS með einkunnina 9 af 10 á GemmaQ kvarðanum sem birtist á Keldan.is en þar birtist jafnréttiseinkunn allra fyrirtækja í Kauphöllinni. Þar er horft til stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækja út frá jafnrétti kynjanna. Þess ber að geta að meðaltal fyrirtækjanna í Kauphöllinni er 6,9. Félagið hefur fengið jafnlaunavottun og leyfi frá Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið. Við erum stolt af þeim árangri að ekki mælist marktækur launamunur á kynjunum hjá VÍS. Það er mikilvægur áfangi.
Viðskiptavinir okkar styrkja góð málefni
Ég er ánægður með að viðskiptavinir okkar hafi nú val um að styrkja góðgerðarfélög þegar þeir kaupa líf- og sjúkdómatryggingar á netinu. Valið stendur milli þriggja góðgerðarfélaga sem eru Kraftur, MS félag Íslands og Hjartaheill. Þeir viðskiptavinir okkar, sem hafa valið þessa leið við að tryggja líf og heilsu sína, söfnuðu rúmum ellefu milljónum króna fyrir þessi góðgerðarfélög á árinu 2020.
Þrátt fyrir krefjandi aðstæður sem sköpuðust á síðasta ári vegna faraldursins þá gekk starfsemin vonum framar. Ég er stoltur af starfsmönnum félagsins sem sýndu og sönnuðu hvað í þeim býr. Þetta er samhentur hópur öflugra starfsmanna — með skýr markmið.
Ég er einnig stoltur af sigrum síðasta árs. Ég hef mikla trú á Ökuvísi — og ég trúi því að okkur takist að fækka bílslysum í íslensku samfélagi. Framundan eru því spennandi tímar.
Ég hlakka til að halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka. Með skýrt leiðarljós eru okkur allir vegir færir.