Ávarp forstjóra
Traust bakland í óvissu lífsins
Árið 2022 var ár mikilla breytinga hjá VÍS. Á vormánuðum var kynnt nýtt skipulag þar sem lögð var mun meiri áherslu á sókn og upplifun viðskiptavina. Sú vinna hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina — aukning í iðgjöldum í lok árs gefur til kynna að við séum á réttri leið.
Þrátt fyrir krefjandi tíma á eignamörkuðunum er árangur ársins viðunandi en hagnaður er 940 milljónir. Hagnaður af vátryggingarekstri nemur 694 milljónum og samsett hlutfall ársins er 99,2%. Árið í heild litaðist af erfiðu tíðarfari sem einkenndist af veðurofsa, kuldatíð og mörgum smærri tjónum — en þó varð ekkert stórtjón hjá okkur. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 16,8 milljarða í tjónabætur á síðasta ári — en samtals var fjöldi tjóna um 36.500.
Góður árangur á krefjandi markaði
Fjárfestingartekjur félagsins voru jákvæðar um 1.545 m.kr. eða sem nemur 3,5% nafnávöxtun þrátt fyrir afar krefjandi markaðsaðstæður á árinu, þar sem skuldabréfavísitölur jafnt sem hlutabréfavísitölur lækkuðu talsvert. Jákvæð afkoma var af skuldabréfaeign félagsins og var hún að mestu borin uppi af ávöxtun óskráðra skuldabréfa. Þá skiluðu óskráð hlutabréf bestri afkomu eða 1.501 m.kr. sem jafngildir 24% nafnávöxtun. Skráð hlutabréf lækkuðu hins vegar um 10,5% og skiluðu neikvæðri afkomu upp á 1.145 m.kr.
Áhersla á sókn og sölu
Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna spyrjum við og mælum reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Þarfir viðskiptavinarins er leiðarljósið í öllu okkar starfi. Tryggingar geta virst flóknar — og því leggjum við allt kapp á að einfalda skilmála til þess að gera tryggingar aðgengilegri og skiljanlegri. Tryggingar skipta okkur öll miklu máli — því rétt vernd getur skipt sköpum í lífi okkar allra. Einnig höfum við lagt mikla áherslu á að gera verðlagningu gagnsærri. Nýjar og endurbættar tryggingar litu dagsins ljós á síðasta ári og má þar sérstaklega nefna reiðhjólatryggingu, húsvagnatryggingu og dráttarvélatryggingu.
Endurskipulagning á sókn og sölu, sem hófst með nýju skipulagi á síðasta ári, hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina. Við lögðum áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra. Við áttum því frumkvæði að rúmlega 20.000 samskiptum við viðskiptavini okkar. Aukning í iðgjöldum í lok árs gefur til kynna að við séum að stíga góð skref til framtíðar.
Stafrænt þjónustufyrirtæki
Undanfarin ár hefur VÍS tekið miklum breytingum. Stafræn þróun hefur verið á fullri ferð og alger umbreyting átt sér stað hjá félaginu — enda félagið á stafrænni vegferð. Við héldum áfram að þróa stafrænu ferlana — en markmiðið er auka hlutfall tjóna sem fer í sjálfvirka afgreiðslu. Við erum stolt af því að nú skrást 80% af tjónstilkynningum sjálfvirkt í kerfin okkar. Við náðum einnig þeim áfanga að nú eru allir stafrænu ferlarnir einnig á ensku. Í mörgum tilfellum er útgreiðsla tjóna orðin sjálfvirk og bætur greiðast út oft á einungis nokkrum mínútum. Við viljum einfalda viðskiptavinum okkar lífið — því við vitum hvað tími þeirra er dýrmætur.
Verðlaunum tryggð
Við kynntum einnig nýtt vildarkerfi til sögunnar á síðasta ári og það er gaman að segja frá því að viðskiptavinir okkar hafa tekið því afar vel — en við erum fyrst tryggingafélaga til að verðlauna tryggð með gagnsæjum hætti. Í tengslum við vildarkerfið kynntum við nýtt app þar sem hægt er að sjá hvernig kjör og fríðindi breytast m.a. með aukinni viðskiptalengd og fjölda trygginga. Í appinu er hægt að tilkynna tjón og sjá fjölda tilboða og annarra fríðinda — en appið er nú aðgengilegt fyrir alla viðskiptavini félagsins. Þegar þetta er ritað í febrúar 2023, er appið eitt af mest sóttu smáforritum á Íslandi — sem er auðvitað alveg frábært!