Hoppa yfir valmynd

Traust bakland í óvissu lífsins

Árið 2022 var ár mikilla breytinga hjá VÍS. Á vormánuðum var kynnt nýtt skipulag þar sem lögð var mun meiri áherslu á sókn og upplifun viðskiptavina. Sú vinna hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina — aukning í iðgjöldum í lok árs gefur til kynna að við séum á réttri leið.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS

Þrátt fyrir krefjandi tíma á eignamörkuðunum er árangur ársins viðunandi en hagnaður er 940 milljónir. Hagnaður af vátryggingarekstri nemur 694 milljónum og samsett hlutfall ársins er 99,2%. Árið í heild litaðist af erfiðu tíðarfari sem einkenndist af veðurofsa, kuldatíð og mörgum smærri tjónum — en þó varð ekkert stórtjón hjá okkur. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 16,8 milljarða í tjónabætur á síðasta ári — en samtals var fjöldi tjóna um 36.500.

Góður árangur á krefjandi markaði

Fjárfestingartekjur félagsins voru jákvæðar um 1.545 m.kr. eða sem nemur 3,5% nafnávöxtun þrátt fyrir afar krefjandi markaðsaðstæður á árinu, þar sem skuldabréfavísitölur jafnt sem hlutabréfavísitölur lækkuðu talsvert. Jákvæð afkoma var af skuldabréfaeign félagsins og var hún að mestu borin uppi af ávöxtun óskráðra skuldabréfa. Þá skiluðu óskráð hlutabréf bestri afkomu eða 1.501 m.kr. sem jafngildir 24% nafnávöxtun. Skráð hlutabréf lækkuðu hins vegar um 10,5% og skiluðu neikvæðri afkomu upp á 1.145 m.kr.

Áhersla á sókn og sölu

Öllu máli skiptir hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Við viljum sífellt bæta upplifun þeirra og ánægju. Þess vegna spyrjum við og mælum reglulega hvernig viðskiptavinir okkar upplifa þjónustuna. Þarfir viðskiptavinarins er leiðarljósið í öllu okkar starfi. Tryggingar geta virst flóknar — og því leggjum við allt kapp á að einfalda skilmála til þess að gera tryggingar aðgengilegri og skiljanlegri. Tryggingar skipta okkur öll miklu máli — því rétt vernd getur skipt sköpum í lífi okkar allra. Einnig höfum við lagt mikla áherslu á að gera verðlagningu gagnsærri. Nýjar og endurbættar tryggingar litu dagsins ljós á síðasta ári og má þar sérstaklega nefna reiðhjólatryggingu, húsvagnatryggingu og dráttarvélatryggingu.

Endurskipulagning á sókn og sölu, sem hófst með nýju skipulagi á síðasta ári, hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina. Við lögðum áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra. Við áttum því frumkvæði að rúmlega 20.000 samskiptum við viðskiptavini okkar. Aukning í iðgjöldum í lok árs gefur til kynna að við séum að stíga góð skref til framtíðar.

Stafrænt þjónustufyrirtæki

Undanfarin ár hefur VÍS tekið miklum breytingum. Stafræn þróun hefur verið á fullri ferð og alger umbreyting átt sér stað hjá félaginu — enda félagið á stafrænni vegferð. Við héldum áfram að þróa stafrænu ferlana — en markmiðið er auka hlutfall tjóna sem fer í sjálfvirka afgreiðslu. Við erum stolt af því að nú skrást 80% af tjónstilkynningum sjálfvirkt í kerfin okkar. Við náðum einnig þeim áfanga að nú eru allir stafrænu ferlarnir einnig á ensku. Í mörgum tilfellum er útgreiðsla tjóna orðin sjálfvirk og bætur greiðast út oft á einungis nokkrum mínútum. Við viljum einfalda viðskiptavinum okkar lífið — því við vitum hvað tími þeirra er dýrmætur.

Verðlaunum tryggð

Við kynntum einnig nýtt vildarkerfi til sögunnar á síðasta ári og það er gaman að segja frá því að viðskiptavinir okkar hafa tekið því afar vel — en við erum fyrst tryggingafélaga til að verðlauna tryggð með gagnsæjum hætti. Í tengslum við vildarkerfið kynntum við nýtt app þar sem hægt er að sjá hvernig kjör og fríðindi breytast m.a. með aukinni viðskiptalengd og fjölda trygginga. Í appinu er hægt að tilkynna tjón og sjá fjölda tilboða og annarra fríðinda — en appið er nú aðgengilegt fyrir alla viðskiptavini félagsins. Þegar þetta er ritað í febrúar 2023, er appið eitt af mest sóttu smáforritum á Íslandi — sem er auðvitað alveg frábært!

Verðlaunum tryggð

Ökuvísir sannar gildi sitt

Ökuvísir, sem er byltingarkennd ökutækjatrygging, hélt áfram að vekja athygli á árinu 2022 og hefur heldur betur sannað gildi sitt — því hann hefur haft mjög góð áhrif á aksturslag viðskiptavina okkar. Mánaðarleg sala meira en fimmfaldaðist og hækkaði meðaltals aksturseinkunn samhliða auknum fjölda. Ökuvísir snýst einfaldlega um að keyra vel — og borga minna. Við erum stolt af þessu framlagi okkar til samfélagsins — því öruggt umhverfi skapar betra samfélag. Við höfum fulla trú á að fleiri viðskiptavinir okkar velji að borga minna og keyra betur með Ökuvísi. Við erum virkilega stolt af því að Ökuvísir hafi hlotið Íslensku vefverðlaunin fyrir bæði tæknilausn ársins sem og app ársins.

Við viljum fækka slysum

Framtíðarsýn okkar er að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka og fækki tjónum. Í stað þess að bíða eftir að slysin eigi sér stað, viljum við koma í veg fyrir þau. VÍS er kraftmikið hreyfiafl með öflugar forvarnir í broddi fylkingar.

Forvarnaráðstefna VÍS var haldin tólfta sinn í Hörpu á árinu. Fjallað er um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Vel valdir sérfræðingar og stjórnendur deila reynslu sinni með ráðstefnugestum. Ráðstefnan hefur skapað sér sess sem fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Alvotech hlaut Forvarnaverðlaun VÍS 2022. Það er fyrirmyndarfyrirtæki í forvörnum og öryggismálum en mikil ábyrgð fylgir því að framleiða lyf og öryggismál verða að vera algert forgangsatriði.

Á árinu var einnig úthlutað úr Nýsköpunarsjóði VÍS til spennandi forvarnaverkefna sem snúa að nýsköpun, líkamlegri og andlegri heilsu. Stígamót, Jákvæð karlmennska og Reiðhjólaskrá hlutu úthlutun úr sjóðnum á síðasta ári.

VÍS hæst tryggingafélaga

Það gladdi okkur mikið að hafa hækkað um tíu stig í UFS áhættumati Reitunar á árinu. Þetta er frábær árangur og hlutum við 78 stig af 100 mögulegum sem þýðir að VÍS er hæst tryggingafélaga. Einkunnin er B2. UFS matið gefur góða yfirsýn hvernig fyrirtæki standa sig í sjálfbærni og hvar helstu tækifæri liggja til að gera enn betur. Einkunnin veitir samanburð við önnur félög á markaði.

Við fengum 85 stig fyrir umhverfisþætti og hækkum um 14 stig á milli ára. Við náðum góðum árangri í félagsþáttum eða 89 stig — og hækkum um 13 stig milli ára. Við fengum 73 stig fyrir stjórnarhætti sem er hækkun um 9 stig frá árinu áður. Þess ber að geta að við hlutum 96 stig fyrir almenna stjórnarhætti en við getum til dæmis aukið framboðið af tryggingum sem ýta undir sjálfbærni — en Ökuvísir er gott dæmi um slíka tryggingu.

Við kolefnisjöfnuðum reksturinn annað árið í röð með vottuðum kolefniseiningum frá Natural Capital partners og höfum sett okkur metnaðarfull markmið til framtíðar, þar á meðal að minnka losun frá rekstri félagsins um 50% fyrir árið 2025.  

Fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónusta

Líkt og hefur komið fram, þá hafa VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Þetta eru spennandi tíðindi og fela í sér fjölbreytt tækifæri fyrir bæði félögin — en sameiningin mun styrkja þau til sóknar á íslenskum fjármálamarkaði.  Við sögðum frá því á árinu 2022, að VÍS hefur ákveðið að útvíkka starfsemi sína og bjóða upp á sjóða- og eignastýringu. SIV eignastýring bíður nú starfsleyfis frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands — og við hlökkum til að bjóða upp á fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónustu.

VÍS er til fyrirmyndar

  • VÍS var eitt af fyrirmyndarfyrirtækjum VR ársins 2022. Þetta er í fjórða skiptið sem VÍS fær viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki VR.
  • Á síðasta ári hlutum við í fjórða skiptið gullmerki Jafnvægisvogarinnar sem félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) veitir. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni og hefur náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að vekja samfélagið til umhugsunar um mikilvægi fjölbreytileika og jafnrétti kynjanna í stjórnunarstöðum.
  • Við erum einnig stolt af því að hafa hlotið viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti. Að auki hlutum við nafnbótina  „fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum“ en Stjórnvísir, Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland standa að viðurkenningunni.

Ánægt og helgað starfsfólk

Á árinu 2021, náðist sá mikilvægi áfangi að ekki mældist launamunur milli kynjanna — og hefur sá árangur viðhaldist. Það sýnir að markviss vinna undanfarinna ára hefur skilað sér í launasetningu sem byggir á málefnalegum rökum, óháð kyni. Við leggjum höfuðáherslu á að VÍS sé góður vinnustaður með einstaka vinnustaðamenningu. Við leitumst við að skapa tækifæri fyrir starfsfólk VÍS til þess að vaxa og dafna — í lífi og starfi. Við berum hag starfsfólks félagsins fyrir brjósti og leitast er við að sýna umhyggju í verki. Við erum því virkilega stolt af góðri niðurstöðu vinnustaðagreiningar, sem framkvæmd var í lok árs 2022, en starfsánægja mældist 4,5 — sem þýðir að VÍS er meðal efstu 25% fyrirtækja á Íslandi. Helgun mældist 4,24 sem er einnig frábær niðurstaða.

Breytum því hvernig tryggingar virka

Við munum halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka og hafa hugrekki til þess að fara ótroðnar slóðir. 2023 verður árið sem við einblínum á heimavöllinn okkar og að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Við ætlum einnig að einblína á tryggð viðskiptavina og nýta þann frábæra grunn sem við höfum lagt síðustu misseri.

VÍS er öflugt félag sem býr yfir framúrskarandi mannauði — og nú tökum við enn stærri skref til móts við nýja tíma með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi.

Guðný Helga Herbertsdóttir
Forstjóri VÍS

Fram­kvæmda­stjórn VÍS

Framkvæmdastjórn VÍS samanstendur af forstjóra, framkvæmdastjóra sölu og þjónustu, kjarnastarfsemi auk mannauðsstjóra. Sjá skipurit.

Birkir Jóhannsson, framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi lét af störfum í lok árs 2022. Samið var um starfslok við Helga Bjarnason í upphafi árs 2023 og Guðný Helga Herbertsdóttir tók við starfi forstjóra félagsins. Framkvæmdastjórn félagsins samanstendur nú tímabundið af forstjóra félagsins ásamt mannauðsstjóra.

Guðný Helga Herbertsdóttir

Forstjóri

Nánar

Anna Rós Ívarsdóttir

Mannauðsstjóri

Nánar

Meira áhugavert efni

Árið 2022

Árið 2022 var árið þar sem við settum alla áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra.

Lesa meira

Starfsemin

Við unnum ýmsa sigra á árinu 2022. Við þróuðum nýtt vildarkerfi, nýtt app, lögðum aukna áherslu á að bæta upplifun viðskiptavina okkar, héldum stærstu forvarnaráðstefnu hér landi og stafræn vegferð var á fullri ferð.

Lesa meira

Sjálfbærni

Við viljum að starfsemi okkar og þjónusta stuðli að sameiginlegum ávinningi fyrir allt samfélagið.

Lesa meira

Lykiltölur

Helstu lykiltölur úr rekstri félagsins árið 2022.

Lesa meira

Ávarp stjórnarformanns

Árið 2022 einkenndist af hækkandi verðbólgu og vöxtum ásamt stríðsátökum handan Atlantshafsins sem hafði áhrif á okkur líkt og aðra, til dæmis með óróa og krefjandi aðstæðum á verðbréfamörkuðum.

Lesa meira